Siglingaklúbburinn Drangey stækkar og dafnar

Á því rúma einu og hálfu ári sem Siglingaklúbburinn Drangey á Sauðárkróki hefur starfað hefur mikið áunnist. Unnið hefur verið markvisst að því að koma upp bátakosti og er nú svo komið að klúbburinn á eða hefur í sinni umsjá 4 optimista, 2 Topper Topaz, 2 Lasera, 5 kayaka 2 kanóa, 2 árabáta og Zodiak.

-Þarna eigum við mikið að þakka Skagafjarðarveitum og síðan Fiskiðjunni Skagfirðing ásamt fleirum. Einnig höfum við náð að koma upp grunninum að okkar aðstöðu þó nokkuð eigi eftir að vinna í henni til að hún sé komin í það ástand sem við erum sátt við, segir Hallbjörn Björnsson gjaldkeri klúbbsins.

Nú er komið að tímamótum hjá klúbbnum því félagsgjöld verða nú í fyrsta skipti innheimt af meðlimum klúbbsins og aðeins þeir sem það greiða verða skráðir félagar í framtíðinni.

Vilji er til þess hjá stjórn klúbbsins að hann sé fyrir sem flesta og er félagsgjaldið sett upp miðað við það en það er eftirfarandi:

  • Fyrir 1 einstakling – 1.500 kr.
  • Fyrir fjölskyldu – max 3.000.kr.

Þannig að fyrir þá sem vilja skrá alla fjölskylduna í klúbbinn þá verður kostnaðurinn aldrei hærri en 3.000 kr.

Hvað fá menn svo fyrir það að vera í klúbbnum.

-Meðlimir munu fá aðgang að klúbbhúsi og geta notað þann búnað sem kúbbnum tilheyrir, svo lengi sem öryggisstöðlum er uppfyllt og umgengni um hús og búnað er viðunandi.

Einnig munu meðlimir fá áframhaldandi ókeypis aðgang á opnunardögum (sbr. þriðjudagskvöld í sumar), en hugmyndin er að rukka fyrir aðgengi að þessu í framtíðinni, segir Hallbjörn og hvetur þá sem áhuga hafa á ganga í klúbbinn að hafa samband við hann í síma  862 2539.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir