Sigurrós og Sigur Rós :: Vangaveltur um tengsl heimsfrægrar hljómsveitar norður í land

Hver skyldu tengslin vera á milli gamalla húsatófta norður í Skagafirði og heimsfrægrar hljómsveitar sem milljónir elska og dá? Kannski langsótt en þó ekki. Myndin er samsett af teikningu Björns Björnssonar af húsinu í Hvammsbrekku, sem birtist í Byggðasögu Skagafjarðar, og auglýsingaplakati af heimstúr Sigur Rósar í sumar.
Hver skyldu tengslin vera á milli gamalla húsatófta norður í Skagafirði og heimsfrægrar hljómsveitar sem milljónir elska og dá? Kannski langsótt en þó ekki. Myndin er samsett af teikningu Björns Björnssonar af húsinu í Hvammsbrekku, sem birtist í Byggðasögu Skagafjarðar, og auglýsingaplakati af heimstúr Sigur Rósar í sumar.

Í öðru bindi Byggðasögu Skagafjarðar er örlítill þáttur um Hvammsbrekku, landspildu úr landi Reynistaðar, sunnan og vestan Sauðárkróksbrautar, milli Geitagerðis og Melslands. Þar voru frumbyggjar Ragnar Magnússon og Sigurlína Sigurðardóttir sem þá höfðu verið nokkur ár í húsmennsku á Mel en þau hófu byggingu íbúðarhússins árið 1928 og fluttust þangað vorið 1929. Húsið var lítið, kjallari 19 m2 og ein hæð 26,4 m2. Í fyrstu virðist það ansi langsótt að tengja þessi húsakynni við einn frægasta tónlistarmann Íslands í einni þekktustu hljómsveit í heimi en er þó ekki erfitt.

Heimreiðin að Hvammsbrekku í október sl.
Frægðarsólin skein skært yfir bænum. Mynd: PF. 

Hvammsbrekka var húsmannsbýli og landið ávallt í eigu Reynistaðarmanna. Ragnar, sem áður er minnst á, fékk það á leigu hjá Jóni Sigurðssyni á Reynistað, byggði þar, girti og ræktaði. Þegar hann fór þaðan 1945 seldi hann Sigurrós Jóhannesdóttur, ávallt kölluð Rósa, og Jóni Jónssyni hús og girðingar og voru þau síðustu ábúendur í Hvammsbrekku. Árið 1960 fluttust þau hjónin að Geitagerði, ásamt Guðrúnu dóttur þeirra, og Hvammsbrekka fór í eyði. Fimm árum síðar brugðu þau búi og fluttu til Skagastrandar.

Rósa var fædd 13. september 1912 á Keldulandi í Vindhælishreppi en foreldrar hennar voru Guðbjörg Jóhannesdóttir á Keldulandi og Jóhannes Jóhannesson á Skíðastöðum á Laxárdal í Skefilstaðahreppi. Meðal efnis í 25. árgangi Húnavöku, riti Ungmennasambands Austur-Húnavatnssýslu, er Húnvetninga minnst sem létust 1984 og þar a meðal er þáttur um Rósu.

Jón Jónsson, bóndi í Hvammsbrekku
og síðar í Geitagerði.

Fram kemur að Guðbjörg og Jóhannes hafi stofnað heimili á Hafragili í sömu sveit, í húsmennsku, en sá búskapur fékk ekki að vara lengi, því Guðbjörg andaðist þegar Sigurrós var tveggja ára. „Var þá Sigurrós komið að Keldulandi í Skagahreppi og ólst hún þar upp að tvítugsaldri hjá Lárusi Einari Björnssyni, bónda, og bústýru hans Guðrúnu Ólafsdóttur. Þetta var orðlagt myndarheimili og gæða fólk. Sigurrós var skýr í hugsun, sjálfstæð í skoðunum, vinnugefin og lagvirk, ljóðelsk og bókelsk og bar gott skyn á fjármuni. — Hún var hversdagslega fáskiptin en vinföst og trygglynd, líktist hún föður sínum sem var atorkumaður til sjós og lands. Sigurrós dvaldi á ýmsum stöðum í Skagafirði við sveitastörf og þótti ágætt hjú. Lengst mun hún hafa dvalið í Valadal. Sigurrós stofnaði heimili 1945 með Jóni Þórarni Jónssyni frá Æsustöðum í Langadal.“

Eftir að Rósa missti eiginmann sinn stundaði hún frystihúsvinnu og vann síðar á saumastofunni Víolu á Skagaströnd. „Var hún sístarfandi, hugurinn var við það að sjá sér farborða og vera sjálfstæð í lífinu er henni tókst mætavel. Nágrönnum sínum var hún trygglynd og gladdist yfir að sækja heim Kelduland á sumarhelgum.“

Gunna og Birgir með börnin Lilju,
Jón Þór,  Sigurrós og Ingibjörgu. 

Jafnframt er rakið í Húnavökuritinu að þau Rósa og Jón hafi eignast eina dóttur barna, Guðrúnu Sigurlínu, „er ólst upp með foreldrum sínum og var snemma myndarstúlka og vel gefin.“ Hún er gift Birgi Ögmundssyni vélvirkja og eru þau búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru Jón Þór, Ingibjörg, Lilja og Sigurrós. Erum við þá komin að tengingunni sem nefnd var í upphafi. Sigurrós og Jón Þór, eða Jónsi í Sigur Rós.

Jón Þór, Jónsi í Sigur Rós.

Sigur Rós er á heimsvísu ein frægasta hljómsveit sem Ísland hefur alið af sér og hefur selt yfir milljón plötur í allt, segir á Wikipedíu. „Sveitin var stofnuð í ágúst 1994 af þeim Jóni Þór Birgissyni (Jónsa), Georg Hólm og Ágústi Ævari Gunnarssyni. Nýfædd systir Jónsa hlaut nafnið Sigurrós Elín Birgisdóttir og þaðan er nafn hljómsveitarinnar komið.“ Varla þarf að nefna það að stúlkan nýborna var skírð í höfuð ömmu sinnar og tengingin til Rósu í Hvammsbrekku fullkomnuð. Það er hreint með ólíkindum að hugsa sér þessi tengsl og þann aðstöðumun sem kona norður í landi, sem bjó við þröngan kost og efalaust hefur þurft að taka á honum stóra sínum í lífinu, og barnabarn hennar, heimsfrægur tónlistarmaður sem leggur heiminn að fótum sér, hafa upplifað í sitt hvoru lagi á ólíkum tímum. En hér verður ekki dvalið við heimsfrægðina heldur verður minningu Rósu haldið á lofti.

Fábreytt en hátíðlegt jólahald

Til að fá smá innsýn í lífið norður í landi upp úr miðri síðustu öld hafði Feykir samband við Guðrúnu, dóttur Rósu í Hvammsbrekku, og bað hana um að rifja upp æskuminningar úr norðlenskum sveitum. Varð hún vel við bón blaðsins.

Í Geitagerði sumarið 1962,
Gunna og Gráni.

-Foreldrar mínir voru bæði vinnufólk í Skagafirði og þegar þau tóku saman áttu þau örugglega mjög lítið og fengu því leigt þetta litla kot, Hvammsbrekku, sem var í eigu Reynisstaðar. Leigan var sú að mamma vann þrjár vikur á haustin við það að gera slátur á Reynisstað. Eins var hún stundum fengin til að vinna á öðrum bæjum, svona vinnuskipti, því að við þurftum oft að fá hjálp eins og í heyskap. Ég man hvað mér fannst leiðinlegt þegar mamma var að vinna annars staðar enda var hún þá oft þreytt þó að hún kvartaði ekki. Þegar ég stækkaði fékk ég oft að fara með henni og lék mér þá við strákana á Reynistað, stelpurnar í Stóru-Gröf eða strákana á Hafsteinsstöðum og það var gaman. Svo eignaðist ég góða vinkonu, Kristínu, sem var í sveit á sumrin hjá afa sínum og ömmu á Mel, næsta bæ við Hvammsbrekku. Aðstæður í Hvammsbrekku voru frekar frumstæðar það var til dæmis ekki klósett.

Ég var sjö eða átta ára þegar við fluttum í Geitagerði og ég man svo vel hvað það var allt annað líf bæði var húsnæðið stærra og betra og túnin stærri og því hægt að hafa fleiri skepnur. Ég á svo sterkar minningar af heyskap í Geitagerði enda vorum við allt sumarið að heyja. Það voru engar vélar þannig að pabbi sló allt með hestum. Heyinu var snúið með hrífum og svo rakað saman með hestarakstrarvél þegar það var orðið þurrt. Í minningunni finnst mér alltaf hafa verið sól og blíða á sumrin og við úti á túni að snúa heyi daginn út og daginn inn.

Sigurrós með Jónsa í fanginu.

Talaði móðir þín um veru sína í Skagafirði?
-Hún talaði stundum um það en ég var bara barn og hafði ekkert mikinn áhuga á því þá. Hún var vinnukona á hinum og þessum bæjum og vann myrkranna á milli. Hún vitnaði oft í myndarlegu húsmæðurnar í Skagafirðinum. Hana hefur örugglega langað að fara í húsmæðraskóla þegar hún var ung en það var aldrei í boði fyrir hana af því að hún hafði ekki efni á því.

Eiginlega frá því að ég man eftir mér þá var hún að tala um hvað það væri gott fyrir ungar konur að fara í húsmæðraskóla og hvetja mig til að fara og auðvitað hafði það sín áhrif svo að ég skellti mér með vinkonum mínum þegar ég hafði aldur til.

Með barnabörnunum Ingu og Jónsa.

Þið flytjið á Skagaströnd, hvernig var að alast þar upp?
-Þegar ég er 12 ára veikist pabbi og þau þurfa að hætta búskap. Það verður úr að við flytjum á Skagaströnd, aðallega af því að fóstursystir og frænka mömmu bjó þar. Ég byrja í unglingaskóla á Skagaströnd og það var nú eitthvað annað en í skólanum í Melsgili þar sem ég var áður. Í Melsgili vorum við bara nokkrir krakkar sem skiptumst í yngri og eldri deild og vorum annan hvern dag í skólanum. Við þekktust vel og kennarinn hélt okkur algjörlega við efnið. Í frímínútum fór kennarinn með okkur út í leiki þannig að þar var aldrei verið að stríða eða skilja útundan. Það voru því mikil viðbrigði að koma í skóla á Skagaströnd á unglingastig verandi svona mikil sveitastelpa. Þar var eiginlega flottast að vera með sem mestu lætin og læra sem minnst. Fyrst var mér strítt og það tók mig tíma að aðlagast og kynnast og þá voru þetta allt fínustu krakkar. Og á Skagaströnd eignaðist ég yndislegar vinkonur.

Jónsi með ömmu Sigurrós. 

Eru einhverjar skemmtilegar minningar frá jólum sem þú vilt deila með lesendum?
-Það voru nokkrar jólahefðir hjá okkur litlu fjölskyldunni, t.d. fórum við alltaf í kaupstaðinn (Sauðárkrók) fyrir jólin, sem mér fannst mjög skemmtilegt af því að þá var keypt eitthvað meira en venjulega. Sérstaklega var skemmtilegt að fara með pabba þar sem hann lét allt eftir mér. Til dæmis fór ég einu sinni með honum í vefnaðarvöruverslunina í kaupfélaginu og sá svo fallega rauða fingravettlinga. Ég spurði pabba hvort ég mætti máta vettlingana og fékk það. Þeir pössuðu svona líka vel og þegar afgreiðslukonan ætlaði að ganga frá þeim aftur sagði ég í hálfum hljóðum: „Ég ætla að fá þá“. Pabbi ætlaði nú ekki að láta þetta eftir mér en lét svo undan og keypti þá.

Ég var óttalega feimin og ekki vön að vera framhleypin enda man ég svo vel eftir svipnum á afgreiðslukonunni sem hefur örugglega fundist ég vera algjör frekjudós.

Það voru alltaf keyptir nokkrir hlutir fyrir jólin sem ekki voru oft til annars. Mamma keypti alltaf pakka af Síríussuðusúkkulaði og pakka af gráfíkjum sem hún geymdi í efstu hillunni inni í geymslu. Ég komst fljótlega að þessum felustað og oftar en ekki var súkkulaðipakkinn hálfnaður þegar mamma ætlaði að nota hann.

Aðal lúxusinn voru þó rauðu jólaeplin sem voru bara til fyrir jólin. Pabbi keypti alltaf hálfan kassa og ég man að ein jólin át ég svo svakalega yfir mig af eplum að ég ældi og gat ekki hugsað mér að borða þau í lengri tíma á eftir. Mamma hafði ekki mikinn tíma til að baka fyrir jólin en þó voru alltaf bakaðar gyðingakökur, hrærðar kökur og randalína.

Gunna, Jónsi og Sigurrós á góðri stund.

Á aðfangadagskvöld byrjaði hátíðin klukkan sex þegar kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringdu inn jólin. Þá sátum við saman og hlustuðum á jólamessuna og var þetta alveg heilög stund. Síðan fóru mamma og pabbi í fjósið að mjólka og þegar þau komu inn þá fórum við í betri fötin og mamma hitaði súkkulaði sem við gæddum okkur á með smákökum og vínartertu. Við áttum pínulítið jólatré til að hafa á borði og á það voru fest lítil kerti sem við kveiktum á eftir að súkkulaðið var drukkið. Það mátti alls ekki hafa lengi kveikt á því þar sem mamma var svo eldhrædd.

Á jóladag var hangikjöt með uppstúf og steiktum hveitikökum og ávaxtagrautur á eftir. Þegar ég var barn þá man ég bara eftir hangikjöti, sviðum og kubbasteik sem sparimat. Þótt jólahaldið hjá okkur hafi kannski verið fábreytt var það mjög hátíðlegt í minningunni.

Lilja, Sigurrós, Jónsi og Inga.

Ég man lítið eftir jólagjöfum fyrr en ég varð sirka 8-9 ára og fór sjálf að hafa einhver áhrif. Einhver fyrsta gjöfin sem ég man almennilega eftir fékk ég frá nágranna okkar, Jóni á Mel. Hann kom á aðfangadag með litla dúkku fyrir mig og ég man hvað mér fannst það frábært. Þegar ég var orðin eldri og læs fannst mér síðan best að fá bækur í jólagjöf og fá að lesa inn í jólanóttina.

Bakar þú fyrir jólin og hver er uppáhalds jólasmákökuuppskriftin?
Ég bakaði nú meira þegar börnin voru yngri og þá voru til dunkar af jólakökum í desember. Núna læt ég bara Bónus um að baka en það er algjört skilyrði að baka myndapiparkökur með barnabörnunum og piparjúnkur fyrir börnin mín. Nú er öldin önnur og stór hluti fjölskyldunnar orðinn vegan og því er jólahaldið orðið ansi frábrugðið því sem það var í sveitinni.

Feykir þakkar Guðrúnu fyrir spjallið og óskar öllum gleðilegra jóla.

- - - - 

Þau leiðu mistök áttu sér stað í JólaFeyki, þar sem greinin birtist fyrst, að inngangur hennar datt út. Það breytti þó ekki öllu, en leiðinlegt samt. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir