„Síminn hefur varla stoppað“

Mikið hefur verið að gera hjá Bjarna Har, kaupmanninum góðkunna sem rekur Verzlun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki, eftir að heimildarmyndin Búðin var sýnd á RÚV í síðustu viku. „Það hefur heilmikið verið hringt og spurt, síminn hefur varla stoppað,“ segir Bjarni í samtali við Mbl.is en þess má geta að fréttin er sú mest lesna á vefnum þessa stundina.

„Það var líka bara einn bíll fyrir utan kaupfélagið í morgun,“ sagði Bjarni, kátur í bragði þegar blaðamaður Mbl.is ræddi við hann í gær. Hann hefur keppt við kaupfélagið alla sína kaupmannstíð en átt þar innanborðs góða vini samt sem áður.

Frá því myndin var í sjónvarpinu hefur fólk víða að af landinu hringt og m.a. spurt út í vörur sem það sá í hillunum hjá honum. Hjá Bjarna fást allskonar nýlenduvörur, fatnaður, búsáhöld og olíuvörur en engar mjólkurvörur eða fersk matmæli.

„Fólk hefur pantað hjá mér kaffikvarnir sem það sá í hillum hjá mér í myndinni og hingað í verslunina hafa nokkrir komið til að lýsa ánægju með myndina. Annars er mest að gera á sumrin þegar ferðamennirnir koma, janúar er yfirleitt dauður tími,“ segir Bjarni.

„Ég bjóst nú aldrei við að verða einhver kvikmyndastjarna. Þetta átti maður eftir, á gamalsaldri,“ sagði Bjarni sem verður 85 ára í ár.

Fleiri fréttir