Sjö mörk skoruð í dag og álagið full mikið fyrir vallarkynninn

Anton Helgi í marki Tindastóls ver víti KÁ-manna með glæsibrag og grípur boltann. MYND: ÓAB
Anton Helgi í marki Tindastóls ver víti KÁ-manna með glæsibrag og grípur boltann. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls tók á móti köppum í Knattspyrnufélagi Ásvöllum úr Hafnarfirði í 4. deildinni í dag í glampandi sól á Sauðárkróksvelli. Yfirburðir heimamanna voru talsverðir en gestunum til hróss má segja að þeir hafi spriklað eins og nýveiddir laxar í síðari hálfleik og tekist að trufla Tindastólsmenn við að draga inn stigin þrjú sem í boði voru. Það dugði þó skammt því Stólarnir unnu 5-2 sigur og sennilega má segja að þeir hafi tryggt sér eitt af tveimur efstu sætunum í B-riðli í leiðinni.

Hafnfirðingar virkuðu þungir í fyrri hálfleik og Stólarnir spiluðu þá lengstum sundur og saman. Jóhann Daði bætti í markasafnið sitt á 15. mínútu þegar hann komst inn í slaka sendingu KÁ-manna aftur á markvörðinn og skoraði af öryggi. Annað mark lá í loftinu en upp úr þurru fengu gestirnir víti eftir kómíska tilburði Antons Helga í marki Stólanna; eitt gott kiks og í kjölfarið fylgdi skutla sem dómari leiksins ákvað að flauta víti á – hann átti semsagt að hafa brotið á KÁ-manni sem náði boltanum. Kappinn varði vítið síðan svo auðveldlega að það var eins og hann hefði gert þetta til að halda á sér hita. Bessi hélt upp á afmælið sitt með því að skora annað mark Stólanna eftir góða sókn á 28. mínútu og Konni bætti við þriðja markinu fimm mínútum síðar með skalla eftir hornspyrnu. Þá var kynni vallarins eiginlega nóg boðið en hann þurfti ítrekað að rölta frá miðri stúku, þar sem hann sat, og að austurenda stúkunnar, þar sem míkrófónninn var geymdur, til að tilkynna um markaskorarann. Gafst hann á endanum upp á stúkusætinu í síðari hálfleik og hélt sig í námunda við græjurnar.

Staðan í hálfleik var 3-0 og eitthvað sat teið í heimamönnum því þeir komu marflatir til leiks í síðari hálfleik. Gestirnir minnkuðu muninn áður en mínúta var liðin og voru grimmari næstu mínúturnar á meðan Stólunum gekk illa að hrista af sér slenið. Reyndar komust KÁ-menn upp með að spila gróft og ágætur dómari leiksins lét sér fátt um finnast – hefði mátt halda að hann væri frá Siglufirði [djók] – og firrtist helst við ef leikmennn baunuðu á hann. Hólmar Daði dró úr taugaveiklun Tindastólsmanna með marki beint úr hornspyrnu á 65. mínútu en Þór Örn Jónsson svaraði fyrir gestina á 75. mínútu eftir fallega hornspyrnuútfærslu. Fékk boltann beint úr horninu út að D-boganum og plasseraði efst í fjærhornið hjá Antoni. Benni Gröndal átti síðasta orðið þegar hann fékk góða stungu inn fyrir vörn KÁ og kláraði með stæl. 5-2 og ævintýri Hafnfirðinga úti í mýri.

Lið heimamann var án þeirra Örth-tvíbura í dag og þá voru þeir Domi og Basi fjarri góðu gamni. Það var því þannig að á leikskýrslu Tindastóls voru engir erlendir leikmenn sem er harla óvanalegt hjá landsbyggðarliði á vorum tímum. Eftir því sem Feykir kemst næst þá hefur Basi yfirgefið herbúðir Stólanna en markahrókurinn spænski hefur verið meiddur síðustu vikur. Hann náði níu leikjum með liði Tindastóls og skoraði í þeim 18 mörk sem verður að teljast viðunandi árangur.

Tindastóll á eftir að spila þrjá leik í B-riðli 4. deildar og hefur nánast tryggt sæti sitt í úrslitakeppninnni sem hefst 25. ágúst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir