Sjúklegur síðari hálfleikur skóp sigur í Síkinu

Snæfellingar sóttu Tindastólsmenn heim í kvöld í 8 liða úrslitum Lengjubikarsins. Leikurinn var með ólíkindum kaflaskiptur og varla hægt að ímynda sér að sömu lið hafi komið til leiks í síðari hálfleik og höfðu spilað þann fyrri. Eftir að hafa verið ellefu stigum undir í hálfleik áttu Stólarnir rosalegan þriðja leikhluta og rúlluðu leiknum upp. Lokatölur 94-67.

Stólarnir byrjuðu leikinn ekki vel og náðu aldrei takti í fyrri hálfleik. Skotin skoppuðu af hringnum og menn misstu boltann klaufalega hvað eftir annað. Í vörninni voru heimamenn skrefinu á eftir gestunum sem hittu líka nokkuð vel fyrir utan teig og hirtu of mikið af fráköstum. Staðan var 14-19 að loknum fyrsta leikhluta. Ingvi Ingvars minnkaði muninn í eitt stig, 24-25, um miðjan annan leikhluta en þá kom góður kafli hjá Snæfellingum sem komust í 26-39 eftir tvær 3ja stiga körfur frá Pálma Sigurgeirs. Ingvi kom Stólunum aftur á blað með 3ja stiga körfu en staðan í hálfleik 32-43.

Tindastólsmenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og nú voru báðir Helgarnir komnir inn. Helgi Margeirs kom ekkert við sögu í fyrri hálfleik og nafni hans Viggósson var í tómu tjóni. En nú komu þeir Stólunum í gírinn ásamt Pétri Birgis sem átti frábæran leik í kvöld. Stólarnir gerðu fimm stig strax í byrjun en Snæfellingar svöruðu að bragði en síðan fór varnarleikur Tindastóls að setja þá algjörlega út af laginu. Með frábærri baráttu og geggjuðum varnarleik unnu heimamenn hvern boltann af öðrum og breyttu þeir stöðunni úr 41-50 í 58-50 – semsagt 17-0 kafli. Gestirnir vissu varla hvort þeir voru að koma eða fara, enda töpuðu þeir leikhlutanum 36-11!

Þeir reyndu að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta en það hvorki gekk né rak hjá þeim, Stólarnir áttu svör við öllu. Síðustu mínútur leiksins fengu síðan lítt reyndari spámenn að spreyta sig og endanum vann Tindastóll 27 stiga sigur og tryggðu sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins.

Sem fyrr segir átti Pétur hörkuleik í kvöld, gerði 24 stig, átti 7 stoðsendingar og stal 6 boltum. Helgi Viggós var eins og tundurspillir í síðari hálfleiknum, skoraði grimmt og sló gestina út af laginu með truflaðri baráttu. Helgi Margeirs gerði ekkert stig, tók eitt frákast, vann einn bolta en var engu að síður ótrúlega mikilvægur. Lewis var seigur að vanda, stal fjórum boltum, átti 10 stoðsendingar og gerði 13 stig.

Stig Tindastóls: Pétur 24, Helgi Rafn 19, Dempsey 16, Lewis 13, Flake 6, Ingvi 5, Viðar 4, Sigurður 3, Finnbogi og Hannes 2 hvor.

Fleiri fréttir