Sjúkraflutningar með aðstoð mokstursbíla og björgunarsveita
Sjúkraflutningamenn á Sauðárkróki stóðu í ströngu um síðustu helgi þegar útköll bárust aðfararnótt sunnudags og aðfararnótt mánudags. Annars vegar var um að ræða barnshafandi konu á Sauðárkróki sem komast þurfti á fæðingardeild á Akureyri og hins vegar flutning úr Fjótum til Sauðárkróks.
Alla jafna er sjúkraflutningum í Fljótum sinnt frá Fjallabyggð, þar sem mun styttra er að fara til Siglufjarðar, en í þetta sinn reyndist sú leið ófær. Björgunarsveitarbíll frá Hofsósi fór á undan sjúkrabílnum og kom með sjúklinginn á móts við sjúkrabílinn en annar björgunarsveitarbíll beið við Hofsós og var í samfloti við sjúkrabílinn. Blint var á köflum og veruleg hálka en ferðin sóttist þó þokkalega.
Ferðin frá Sauðárkróki til Akureyrar tók sjúkrabílinn um einn og hálfan tíma, en verið var að flytja barnshafandi konu sem var að því komin að fæða. Ljóst er að sjúkrabíllinn hefði ekki komist einn og óstuddur niður af Öxnadalsheiðinni. Ferðin til baka tók sjúkrabílinn um tvo á hálfan tíma.
Í frétt á Vísi.is er haft eftir Ingibjörg Hönnu Jónsdóttur, forstöðuljósmóðir við Sjúkrahúsið á Akureyri, að sú umgjörð sem sé búin fæðingum á Norðurlandi sé ekki nógu góð fyrir þær konur sem koma langt að. Fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri sinnir öllu Norðurlandi og einnig hafa konur komið frá Austurlandi.
Engar skipulagðar fæðingar eru í Þingeyjarsýslum, á norðanverðum Tröllaskaga og á Norðvesturlandi. „Þetta er mjög streituvaldandi ástand fyrir konur sem koma langt að, sem bætir ofan á tilhlökkun og kvíða sem fylgir óneitanlega fæðingunni," segir Ingibjörg Hanna í viðtali á Vísi.is.