Sjúkraliðar mótmæla niðurskurði til heilbrigðisþjónustu
Fjölmennur aðalfundur sjúkraliða á Norðurlandi vestra sem haldinn var á Gauksmýri í gær lýsir í ályktun miklum áhyggjum og eindreginni andstöðu við ákvörðun fjármála– og heilbrigðisráðherra um niðurskurð á fjárveitingum til heilbrigðisþjónustu landsmanna.
Ályktun þeirra er hér birt orðrétt.
Sjúkraliðar mótmæla harðlega síendurteknum niðurskurði á fjárveitingum til sjúkrahúsa og annarrar heilbrigðisþjónustu landsmanna og krefjast þess að staðinn verði vörður um velferðarkerfi Íslendinga og látið af endurteknum aðförum að því. Mál er að linni.
Árangur af áratuga uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar er stefnt í hættu með vanhugsuðum skammtímaaðgerðum heilbrigðisráðherra, verði hann við kröfu fjárveitinganefndar Alþingis um 10% niðurskurð á fjárveitingum til sjúkrahúsa og annarrar heilbrigðisþjónustu.
Það er sjúkraliðum efst í huga sem fagfólks á heilbrigðissviði og brýnna en nokkru sinni að heilbrigðiskerfið verði eflt á tímum sem þessum. Yfirlýsingar ráðamanna um að saman fari, að skera niður með annarri hendinni og auka þjónustuna með hinni ganga ekki upp.
Aðalfundur sjúkraliða í NL vestra hvetur stjórnvöld eindregið til að drag ákvörðun sína til baka og leita annarra leiða til hagræðingar í samstarfi og samráði við starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, samtök launþega, fjöldahreyfingar sjúklinga, öryrkja, eldri borgara og annarra aðila sem hagsmuna hafa að gæta varðandi gæði og skilvirkni heilbrigðiskerfisins.
Sjúkraliðar skora á heilbrigðisráðherra að reka af sér slyðruorðið, bretta upp ermar og standa vörð um sitt ráðuneyti í því fárviðri sem nú geisar.
Sjúkraliðar á Norðurlandi vestra.