Skaðaminnkandi frumvarp um afglæpavæðingu lagt fram í fjórða sinn

Halldóra Mogensen. Aðsend mynd.
Halldóra Mogensen. Aðsend mynd.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, lagði í gær fram frumvarp á Alþingi um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna í fjórða sinn. Markmið þess er að stjórnvöld hætti að reka skaðlega stefnu í vímuefnamálum og hætti að refsa fólki fyrir að nota ólögleg vímuefni eða vera með vímuefni á sér.

„Stríðið gegn vímuefnum hefur verið rekið á harðri refsistefnu sem er afar skaðleg fyrir fólk sem á við vímuefnavanda að stríða. Afnám bannsins væri stórt skaðaminnkandi skref í átt að mannúðlegri og skynsamlegri nálgun að meðferð vímuefna,“ segir í tilkynningu Pírata.

Halldóra telur að kominn sé tími til að binda enda á refsistefnuna, leggur frumvarpið fram í fjórða skiptið og gefur þannig stjórnarflokkunum tækifæri til að efna sín eigin loforð um að hætta að beita skaðlegri refsistefnu í vímuefnamálum.

„Þegar við hættum loksins að heyja stríð gegn jaðarsetta fólkinu í samfélaginu okkar þá getum við sett orkuna okkar og fjármagn í að draga úr þjáningu, að aðstoða fólk við að vinna úr áföllum og græða sár,” sagði Halldóra í ræðu sinni við flutning frumvarpsins í dag.

„Byggjum upp meðferðarúrræði sem grundvallast á því að vinna úr áföllum og bjóða upp á lausnir sem leysa líkamlega, andlega- og félagslega vandann sem skapar fíknina. Það er þannig sem við náum árangri.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir