Skagfirðingar vilja jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar

Kort af Tröllaskaga með hugsanlegum jarðgangaleiðum svo og
skýringakort um staðhætti. Mynd úr umsögn Kristjáns L. Möller fyrir hönd 70 rekstrar- og þjónustuaðila á Siglufirði, Ólafsfirði og í Fljótum.
Kort af Tröllaskaga með hugsanlegum jarðgangaleiðum svo og skýringakort um staðhætti. Mynd úr umsögn Kristjáns L. Möller fyrir hönd 70 rekstrar- og þjónustuaðila á Siglufirði, Ólafsfirði og í Fljótum.

Á undanförnum árum hefur Sveitarfélagið Skagafjörður þrýst mjög á þingmenn og Vegagerðina um hröðun undirbúnings og framkvæmda við jarðgöng á milli Fljóta og Siglufjarðar og segir í bókun sveitarstjórnar að nú sem aldrei fyrr sé lífsnauðsynlegt að göngin komist til framkvæmda því jarðsig, skriðuföll og grjóthrun hefur verið með mesta móti á undanförnum misserum eins og þeir þekkja sem aka daglega um veginn. Tíðar jarðskjálftahrinur úti fyrir Tröllaskaga séu ekki heldur til að bæta ástandið. 

„Það er mál manna að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær Siglufjarðarvegur rofnar á löngum kafla. Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar skorar á alþingismenn og samgönguráðherra að tryggja að undirbúningi jarðganga á milli Fljóta og Siglufjarðar verði lokið sem fyrst og tryggja fjármögnun til að framkvæmdir við gerð þeirra geti hafist innan tíðar. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hvetur Vegagerðina jafnframt til að hafa heimamenn í Fljótum og á Siglufirði með í ráðum við greiningu á heppilegri legu ganganna,“ segir í bókun sveitarstjórnarinnar.

Rímar þessi bókun við vilja fjölmargra aðila á utanverðum Tröllaskaga eins og hægt er að lesa í umsögn Kristjáns L. Möller fyrir hönd 70 rekstrar- og þjónustuaðila á Siglufirði, Ólafsfirði og í Fljótum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við tillögu til samgönguáætlunar áranna 2020-2024, sem birt var á Trölla.is í maí sl.

Þar er Alþingi og háttvirt umhverfis- og samgöngunefnd hvött til þess að setja jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta á stefnumarkandi og endurskoðaða samgönguáætlun áranna 2020-2034 og fjárveitingu til að hefja allar nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir sem allra fyrst á aðgerðaáætlun 2020-2024.

Þar kemur einnig fram að Siglufjarðarvegur, frá Ketilási í Fljótum til Siglufjarðar, hafi verið lokaður í 45 daga frá 10. des 2019 til 24. mars 2020 vegna snjóa og snjóflóðahættu. Ný jarðgöng frá Siglufirði yfir í Fljót myndi leggja af þennan snjóþunga og erfiða vegkafla, sem er um 25 km langur, og stytta leiðina til Siglufjarðar um 15 km.

Sjá umsögn HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir