Skagfirskar rætur | Magnús Óskarsson skrifar

Magnús Óskarsson. AÐSEND MYND
Magnús Óskarsson. AÐSEND MYND

Árið 2001 stofnuðum við tveir félagar lítið sprotafyrirtæki, Calidris, með það fyrir augum að selja hugbúnað til flugfélaga, byggt á þörfum sem við höfðum komið auga á í störfum okkar hjá Icelandair. Við urðum þess láns aðnjótandi að fá Höllu Tómasdóttur sem stjórnarformann þegar í upphafi. Halla vann kraftaverk við að hjálpa okkur að byggja upp öfluga fyrirtækjamenningu og liðsheild, byggða á góðum gildum. Án þessarar sterku menningar hefðum við aldrei náð þeim árangri sem við náðum og líklega farið á hausinn þegar kreppti að í starfseminni.

Eftir að Halla sleppti af okkur hendinni hef ég fylgst með henni takast á við sífellt stærri verkefni. Alls staðar af sömu ljúfmennsku og gleði, áhuga og krafti. Hún lætur hlutina gerast hvar sem hún kemur.

Halla á djúpar rætur í Skagafirði og vestur á Ströndum og var í sveit í Skagafirði. Tómas Björn Þórhallsson faðir hennar var fæddur á Hofi í Hjaltadal. Hann missti móður sína þriggja ára gam-all og pabba sinn ungur og var sendur átta ára gamall í vist á Kolkuósi og ólst þar upp til 15 ára aldurs.

Halla segir sjálf að enginn geri neitt einn. Ég hef dáðst að því hversu auðvelt hún á með að fá fólk með sér og að leiða saman fólk með mismunandi skoðanir og hagsmuni og fá það til að tala saman og móta sameiginlega mynd. Ekki veitir okkur af í þessum heimi þar sem traust er í lágmarki og gjáin milli mismunandi skoðana dýpkar sífellt. Enginn talar við önnur en þau sem eru saman sinnis. Við þurfum leið-toga sem getur byggt brýr, leiðtoga sem hefur gert það áður og mun gera það áfram.

Síðustu sex ár hefur Halla sem forstjóri B-Team fengist við mörg stærstu viðfangsefni samtímans eins og jafnrétti á breiðum grunni, heiðarleika í viðskiptum, og ábyrgð í umhverfis- og loftslagsmálum. Nú í mars 2024 valdi Reuters, ein virtasta fréttastofa heims, Höllu sem eina af 20 áhrifamestu konum heims í loftslags- og umhverfismál-um.

Það er ekki annað hægt en hrífast af Höllu og einlægum áhuga hennar á að vinna þjóð sinni gagn og gera heiminn betri. Og ekki síður af orkunni sem hún hefur og því sem hún kemur í verk. Halla er heillandi leiðtogi sem við Íslendingar getum verið stolt af. Ég get sjálfur ekki hugsað mér betri forseta fyrir Ísland.

Við Íslendingar kjósum hvorki flokk né stefnu þegar við kjósum forseta, við kjósum einstakling sem við treystum og getum verið stolt af. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur Höllu og mynda ykkur sjálf skoðun á hæfni hennar sem forseta. Og fyrir alla muni mætið á kjörstað og nýtið kosningaréttinn.

Magnús Ingi Óskarsson
frá Brekku

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir