Skagfirskir unglingar langt undir landsmeðaltali, en á afar jákvæðan hátt

Forvarnadagurinn var í gær og af því tilefni kynntu Frístundastjóri og starfsmenn Húss frítímans fyrir nemendum 9.bekkjar Árskóla á Sauðárkróki, niðurstöður lífsháttakannana sem lagðar hafa verið fyrir alla unglinga í Skagafirði, í 8., 9. og 10. bekkjum grunnskólanna , árlega síðustu 6 ár. Niðurstöður í ár virtust ekki koma unglingunum  mikið á óvart og mátti heyra á þeim hve stoltir þeir voru þegar þeim var kynntur samanburðurinn á landsvísu.

Mjög mikill árangur hefur náðst á öllum sviðum forvarna hér á landi síðustu 5-10 árin en árangurinn í Skagafirði er umtalsverður og betri en á landsvísu. Ef bornar eru saman niðurstöður Lífsháttakannana í Skagafirði árið 2005  og nú í ár og  einnig niðurstöður kannana á landsvísu þessi ár, kemur árangurinn í ljós. 5 % skagfirskra unglinga sögðust í könnuninni í vor hafa orðið drukkin en sömu spurningu svöruðu 22% játandi fyrir 5 árum. Þá var það á pari við landsmeðaltalið en í ár segjast 14% 10. bekkinga á landinu hafa neytt áfengis síðustu 30 daga.

Reykingar hafa dregist saman í Skagafirði meðal unglinga, úr 5% árið 2005 í 3% í ár. Þessi tala fór hæst í 12% í Skagafirði árið 2008 en þá var strax brugðist við og árangurinn lét ekki á sér standa. 7% 15 ára unglinga á Íslandi segjast reykja í dag.

Tvö og hálft prósent skagfirskra unglinga segjast í ár hafa prófað önnur eiturlyf en áfengi og tóbak  en þessi tala var 6 % fyrir fimm árum. Landsmeðaltal 10.bekkinga sem reykt hafa hass er 6%. 

En ýmislegt annað fróðlegt hefur komið í ljós í könnunum okkar síðustu ár. M.a. að daglegt sælgætisát unglinga hefur dregist verulega saman og miklu fleiri borða bara nammi um helgar. Þá segist um helmingur unglinga  geta talað daglega við foreldra sína í ár en árið 2005 sögðust aðeins tæpur fjórðungur geta það. Aðsókn að Félagsmiðstöðinni hefur einnig aukist og segjast um 75% unglinga í 8.- 10. bekkjum koma þangað amk. þrisvar sinnum í mánuði eða oftar.

-Það er full ástæða til þess að hrósa skagfirskum unglingum fyrir góðan og heilbrigðan lífsstíl og foreldrum fyrir að styðja þá.  Marita-fræðslan fer fram í næstu viku hér í Skagafirði og verða niðurstöður könnunarinnar þá kynntar enn betur bæði fyrir foreldrum og unglingum, segir í tilkynningu frá Svf. Skagafirði.

/Skagafjörður.is

Fleiri fréttir