Skagfirskur athafnamaður ársins í Skaraborg í Svíþjóð
Skagfirðingurinn Þórður Erlingsson sem á og rekur hugbúnaðarfyrirtækið InExchange, var nýlega valinn athafnamaður ársins í Skaraborg-héraði í Svíþjóð af samtökum atvinnulífsins þar ytra. Segir hann verðlaunin vera mikinn heiður.
Almenningi gafst kostur á að tilnefnda fólk til verðlaunanna og í kjölfarið valdi dómnefnd fimm einstaklinga sem kosið var á milli. Vann Þórður þá kosningu, en sambærileg kosning var framkvæmd í hverju héraði en síðar verður valinn úr hópnum athafnamaður ársins í Svíþjóð.
Fyrirtæki Þórðar sérhæfir sig í rafrænum reikningum fyrir fyrirtæki á netinu og hefur vaxið hraðast allra netfyrirtækja í Svíþjóð þegar litið er til veltunnar. Er það með stóra markaðshlutdeild á öllum Norðurlöndum og viðskiptavini víða um heim.
Að sögn Þórðar bætast daglega um þúsund fyrirtæki í kúnnahópinn en í dag eru viðskiptavinir um 220 þúsund. Þórður útskýrir að þjónustan virki líkt og Facebook, að því leyti að fyrirtæki geti sent hvert öðru „vinabeiðnir“ og í kjölfarið skipst á upplýsingum og greiðslum.