Skellur í Sláturhúsinu

Kvennalið Tindastóls heimsótti Keflavík sl. laugardag en þar tóku heimastúlkur á móti þeim í 47. leik 1. deildar kvenna á þessu tímabili. Það var ekki gestrisninni fyrir að fara í Sláturhúsinu frekar en fyrri daginn og réðust úrslitin í raun strax í fyrri hálfleik en heimastúlkur leiddu þá 45-23. Staðan hvorki versnaði né bestnaði í síðari hálfleik og lokatölur 80-58.

Það er allt of mikið af góðum körfuboltastúlkum í Keflavík og b-liðið ekkert lamb að leika sér við. Heimastúlkur voru komnar með tíu stiga forystu eftir fimm mínútna leik og staðan að loknum fyrsta leikhluta var 27-16. Hildur Heba setti niður fyrsta stig annars leikhluta en síðan komu níu stig í röð frá Keflavík og staðan 36-18. Liði Tindastóls gekk afar illa að finna körfuna fram að hléi og bættu aðeins við fimm stigum en þeim gekk þó betur að verjast liði heimastúlkna. Það munaði 22 stigum á liðunum í hálfleik og lið Keflvíkinga náði mest 25 stiga forystu, 51-25, en þá svöruðu systurnar Marín Lind (6) og Rakel Rós (1) fyrir Stólastúlkur og löguðu aðeins stöðuna. Eftir þrist frá Söru Lind í liði Keflvíkinga var enn 22 stiga munur, 62-40, fyrir loka fjórðunginn og í honum minnkuðu gestirnir mest muninn í 16 stig eftir stökkskot frá Tess. Nær komust stelpurnar ekki og þriðja tap Tindastóls í röð staðreynd.

Eftir þessa taphrinu er lið Tindastóls ekki lengur í einu af toppsætunum, stelpurnar eru nú í fimmta sæti 1. deildar með 16 stig líkt og ÍR og Njarðvík en með lakari stöðu í innbirðis viðureignum liðanna. Það er því stutt á milli hláturs og gráturs í þessum bissness. Lið Tindastóls var án norðanstúlknanna tveggja, Hrefnu og Karen, og sömuleiðis vantaði Ingu Sólveigu í liðið og munar um minna. Tess Williams var stigahæst með 22 stig og tíu fráköst og reyndar sex tapaða bolta. Eva Rún Dagsdóttir skilaði 11 stigum og fimm fráköstum og Marín Lind Ágústsdóttir gerði 9 stig. Skotnýting heimastúlkna var 44% en Tindastóls 31%. 

Næsti leikur stúlknanna er hér heima í Síkinu nk. laugardag kl. 16 en þá kemur lið Njarðvíkinga í heimsókn. Nú er um að gera að fjölmenna í Síkið og styðja stelpurnar til sigurs. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir