Skemmtilegt og vel sótt málþing um Jóhönnu Jóhannesdóttur frá Svínavatni
Málþingið sem haldið var s.l. sunnudag, 27. september, til minningar um Jóhönnu Jóhannesdóttur (f. 4.11.1895, d. 1.5.1989) hannyrðakonu og bónda frá Svínavatni, tókst afar vel og var mjög vel sótt, en gestir voru um sextíu.
Á málþinginu voru flutt þrjú fræðandi og skemmtileg erindi, Dr. Áslaug Sverrisdóttir, sagnfræðingur flutti erindi um ævi og störf Jóhönnu, Iðunn Vignisdóttir, bókmennta- og sagnfræðingur var með ágrip af sögu Kvennaskólans á Blönduósi og Sólborg Una Pálsdóttir, sagnfræðingur og héraðsskjalavörður var með hugleiðingu um sjálfstæði, réttindabaráttu og vefstóla. Að loknum erindunum var boðið uppá kaffi og með því, en það var Kvennfélag Svínvatnshrepps sem sá um hinar frábæru kaffiveitingar sem voru í anda gamallar tíðar.
Eftir kaffið var gestum málþingsins boðið að skoða Kvennaskólann, Minjastofur Vina Kvennaskólans, Vatnsdælurefilinn, sýningu listamanna úr listamiðstöð Textílseturs Íslands í Bílskúrs galleríi og sýningu á verkum Jóhönnu sem sett var upp sérstaklega fyrir málþingið í Heimilisiðnaðarsafninu. Að lokum bauðst áhugasömum málþingsgestum að heimsækja æskuslóðir Jóhönnu á Svínavatn. Um málþingsstjórn sá Jóhanna E. Pálmadóttir, framkvæmdastjóri Textílseturs Íslands.
Málþingið var samstarfsverkefni Þekkingarsetursins á Blönduósi, Textílseturs Íslands, Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi. Heimilisiðnaðarfélag Íslands lánaði nokkra muni til sýningarinnar. Málþingið var styrkt af Húnavatnshreppi, Landsvirkjun og Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Viljum við þakka öllum samstarfsaðilum, styrktaraðilum, Vinum Kvennaskólans, Kvennfélagi Svínavatnshrepps, ættingjum Jóhönnu og öðrum sem gerðu okkur það kleypt að halda þetta málþing. Einnig viljum við þakka ættingjum Jóhönnu sem og öllum málþingsgestum sérstaklega vel fyrir komuna og samveruna.
Fréttatilkynning
