Skíðasvæðið í Tindastól heitir nú AVIS skíðasvæðið

Við undirritun samnings milli skíðadeildar Tindastóls og AVIS bílaleigu um samstarf sem kemur báðum aðilum vel. Frá vinstri Baldur Sigurðsson, umboðsmaður AVIS á Sauðárkróki, Viggó Jónsson, framkvæmdarstjóri skíðadeildar Tindastóls, Axel Gómez framkvæmdastjóri AVIS og Arnþór Jónsson, sölustjóri sama fyrirtækis. Mynd: PF.
Við undirritun samnings milli skíðadeildar Tindastóls og AVIS bílaleigu um samstarf sem kemur báðum aðilum vel. Frá vinstri Baldur Sigurðsson, umboðsmaður AVIS á Sauðárkróki, Viggó Jónsson, framkvæmdarstjóri skíðadeildar Tindastóls, Axel Gómez framkvæmdastjóri AVIS og Arnþór Jónsson, sölustjóri sama fyrirtækis. Mynd: PF.

Í gær var undirritaður á skíðasvæði Tindastóls samstarfssamningur skíðadeildar Tindastóls og bílaleigunnar AVIS sem hefur það að markmiði að „gera gott fyrir báða aðila“, eins og Viggó Jónsson, framkvæmdastjóri skíðadeildarinnar og Axel Gómez, framkvæmdastjóri AVIS, orðuðu það.

Axel segir samninginn vera liður í því að efla tengsl fyrirtækisins við landsbyggðina og sérstaklega Norðurland. „Við höfum stutt íþróttafélög út um allt land en þetta er kannski það stærsta sem við höfum gert við einstaka íþróttatengt félag í landinu hingað til. Þannig að við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi,“ segir hann.

Um þriggja ára samning er að ræða þar sem skíðadeildin fær bíl til umráða frá AVIS, fjárhagslegan stuðning og jafnvel eitthvað fleira. „Við komum með peninga að þessu, bíl, merkingar, auglýsingar og fleira, svo skíðadeildin getur nýtt sér og gert það sem vilji stendur til fyrir krakkana og fólkið hérna í byggðalaginu og þá líka til hagsbóta fyrir okkur sem félag. Við erum mjög stolt og spennt fyrir þessu. Þetta er fyrsta svæðið þar sem AVIS kemur að og er ekki íþróttahöll eða fótboltaleikvangur,“ segir Axel en algengt er að slíkir íþróttaleikvangar séu nefndir eftir styrktaraðilum. Hann segir þetta verkefni vera í samræmi við stefnu AVIS á heimsvísu, yfir 200 lönd, að styðja við samfélag sitt með þessum hætti.

 „Þetta er algerlega frábært fyrir skíðadeildina og kannski fyrst og síðast viðurkenning á því sem við höfum verið að gera í gegnum þessi 20 ár sem við erum búin að vera með þetta svæði hér,“ segir Viggó aðspurður um það hvernig samningurinn komi skíðadeildinni til góða. „Og þetta er kannski bara ein af þeim rósum í hnappagat okkar að fá AVIS til samstarfs við okkur og kannski líka það að finna þennan vilja og þennan hug til okkar í þessum bransa að AVIS skuli hafa trú á því að við séum að gera rétt,“ segir Viggó sem nú er staðarhaldari í AVIS skíðasvæðinu í Tindastól.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir