Skín við sólu slær í gegn

Ein af myndunum á síðunni Skín við sólu en kannski ekki dæmigerð. Ómar Bragi sjálfur fyrir 1980. MYND: SIGURBJÖRN BJÖRNSSON
Ein af myndunum á síðunni Skín við sólu en kannski ekki dæmigerð. Ómar Bragi sjálfur fyrir 1980. MYND: SIGURBJÖRN BJÖRNSSON

Það er ekki að spyrja að því þegar Ómar Bragi Stefánsson fær einhverja hugmynd – þær eiga það til að vinda duglega upp á sig. Ómar er til dæmis höfundur Króksblóts og Jólahlaðborðs Rotary, svo eitthvað sé nefnt, en nú um helgina stofnaði hann síðuna Skín við sólu á Facebook. Þar hvatti hann fólk til að ganga til liðs við sig og smella einhverju skemmtilegu á síðuna og þá ekki síst myndum eða myndböndum. Undirtektirnar létu ekki á sér standa og liggur við allir Skagfirðingar fyrr og síðar séu mættir til leiks með efni, sér og öðrum til ánægju á þessum sérkennilega tíma sem við lifum.

Feykir hafði samband við Ómar og lagði fyrir hann nokkrar spurningar sem tengdust síðunni góðu og einnig störfum hans tengdum viðburðum sem eru á döfinni hjá UMFÍ.

Hvers vegna stofnaðir þú Facebook-síðuna Skín við sólu og hver var hugmyndin með þessu framtaki? „Það var nú bara þannig að þegar ég vaknaði á sunnudaginn var þetta bara í höfðinu á mér.  Ég stóð upp, fór fram í stofu og settist aðeins niður þar og þetta varð smátt og smátt skýrara fyrir mér.  Ég held að á laugardeginum, daginn áður hafi ég verið að dást að hve samheldnin væri mikil í samfélaginu, ekki bara hér, heldur um land allt.  Það var svo frábært að sjá að klappað væri fyrir heilbrigðisstarfsfólki, sungið fyrir aldraða og af svölum fyrir nágrannana. Hjálpast til við að fara með mat og nauðsynjavörur til þeirra sem ekki geta náð í slíkt og þannig mætti lengi áfram telja.

Ég ræddi þetta smástund við hana Maríu mína en hún veit það líklega best allra að þegar ég fæ einhverja svona hugmynd og vil framkvæma hana þá er fátt sem stoppar það.  Síðan settist ég við tölvuna og stofnaði þessa síðu. 

Ég sá fyrir mér að byrja á því að setja inn landslagsmyndir úr Skagafirði því þar er nú af nægu að taka. Núna er kominn mikill fjöldi landslagsmynda þar inn sem myndu sóma sér vel á hvaða sýningu sem væri. Síðan hvatti ég til að næst yrðu settar inn íþróttamyndir enda stendur það mér næst.  Núna er síðan verið að setja inn myndir og myndbönd sem tengjast tónlistinni hér í Skagafirði og þar eigum við nú aldeilis fjársjóði. Svona sá ég þetta fyrir mér, nýr flokkur, ný viðfangsefni og nýjar myndir. Þarna ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og flokk sem tengist þeim.“

Hversu margir meðlimir eru á síðunni?„Ég held að þeir séu að nálgast 3.500 sem er með ólíkindum. Mig grunaði ekki þetta myndi vinda svona upp á sig þegar ég fór af stað. En svona er staðan og ég er pínu rosalega glaður með þessar móttökur. En til að viðhalda henni í einhvern tíma þá þarf fólk að setja inn myndir ofl. Þar held ég að flokkarnir skipti öllu máli.“

Hefurðu einhverja hugmynd um hversu margar myndir eru komnar á síðuna eða hversu margir hafa sett inn myndir?„Nei, ég hef nú ekki haldið neitt utan um það. Þetta á bara að viðhalda sér sjálft með hjálp þeirra fjölmörgu sem komnir eru á síðuna. Þannig að ég hvet fólk til að vera með og taka þátt í þessu.“

Hvað hefur komið þér mest á óvart varðandi síðuna? „Það er auðvitað sá fjöldi sem kominn er. Það var eitthvað sem ég lagði nú ekki sérstaklega með af stað en hefur komið skemmtilega á óvart. Svo er það jákvæðnin og gleðin sem ég skynja hjá fólki sem er að skoða þetta. Enda lagði ég áherslu á að inn á þessa síðu kæmi bara jákvæðni og gleði, ekkert annað væri í boði.“

Og annað mál. Nú er stórt Landsmótsár í ár. Hvernig eru útlitið með mótin á vegum UMFÍ? Hefur eitthvað verið ákveðið í þeim efnum? „UMFÍ er með þrjú mót á sínum vegum á þessu ári.  Landsmót UMFÍ 50+ í Borgarnesi, Íþvóttaveislu UMFÍ í Kópavogi og svo Unglingalandsmótið á Selfossi,  Við höldum okkar striki en það gera allir sér grein fyrir stöðunni í samfélaginu.  Ætli við látum ekki páskana líða og tökum síðan ákvörðun fljótlega þar á eftir. Við munum taka skynsamlega ákvörðun þegar að því kemur.“

Einhver skilaboð til fólks á þessum sérstöku tímum? „Halda áfram að vera gott við hvort annað og hugsa vel um sína nánustu og þá sem minna mega sín í samfélaginu.  Við höfum allt til alls hér í Skagafirði og þegar þetta gengur yfir þá mun lífið halda áfram. Skagafjörður verður enn fegursti fjörðurinn og fólkið sem hér býr verður áfram það góða og duglega fólk sem hann byggir. – Svo auðvitað af fara á síðuna Skín við sólu og setja inn efni og hafa gaman af,“  segir Ómar Bragi að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir