Skipað í samstarfsnefnd sameiningar sveitarfélaga í Skagafirði

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur ákveðið að skipa fimm fulltrúa og tvo til vara í samstarfsnefnd sem kanna skuli möguleika á sameiningu við sveitarfélagið Akrahrepp.

Stefnt er að því að samstarfsnefnd skili áliti sínu til sveitarstjórnar í nóvember næstkomandi með það fyrir augum að kynning tillögunnar hefjist í desember og að kjördagur verði í janúar 2022.

Samstarfsnefndinni verður falið að setja verkefninu nánari verkáætlun og tímaramma. Í fundargerð sveitarstjórnar Svf. Skagafjarðar kemur fram að tillagan sé lögð fram í kjölfar óformlegra viðræðna fulltrúa sveitarfélaganna tveggja og samráðs við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Fyrirliggjandi er stöðugreining sem styttir verktímann verulega og samráð við íbúa er hafið.

Aðalmenn í nefndinni á vegum Svf. Skagafjarðar eru Gísli Sigurðsson, Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Álfhildur Leifsdóttir, Jóhanna Ey Harðardóttir og Sigfús Ingi Sigfússon en til vara Regína Valdimarsdóttir og Ólafur Bjarni Haraldsson.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir