Skorað á ráðherra og þingmenn að bregðast við
Byggðarráð Blönduóss fjallaði um erfiða stöðu sauðfjárbænda á fundi sínum í gær og tekur í sama streng og sveitarstjórn Húnavatnshrepps og byggðarráð Húnaþings vestra sem einnig hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því hvert stefnir.
Í samþykkt byggðarráðs sem samþykkt var samhljóða segir: „Byggðaráð Blönduósbæjar lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu sauðfjárbænda. Verði af þeim lækkunum á verði til bænda sem boðaðar hafa verið nú í haust er ljóst er að um gríðarlegt tekjutap er að ræða og í raun forsendubrest í rekstri flestra sauðfjárbúa." Einnig skorar ráðið á ráðherra landbúnaðarmála og ráðherra byggðamála, svo og þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir því að málefni sauðfjárbænda verði leyst með farsælum hætti.
Tengdar fréttir: Ljóst að um gríðarlegt tekjutap er að ræða, Hætta á stórfelldri byggðaröskun og Alvarlegur byggðavandi í vændum.