Skorað á sláturleyfishafa að borga ásættanlegt afurðaverð

Úr Vatnsdal í Húnavatnshreppi. Mynd:FE
Úr Vatnsdal í Húnavatnshreppi. Mynd:FE

Á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps þann 4. júlí síðastliðinn var samþykkt samhljóða ályktun þar sem skorað er á sláturleyfishafa að borga ásættanlegt afurðaverð til sauðfjárbænda á komandi hausti. Jafnframt er skorað er á stjórnvöld að finna leiðir til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins og eru forystumenn sauðfjárbænda, sláturleyfishafar og ráðamenn þjóðarinnar hvattir til að finna framtíðarlausn á alvarlegum vanda sauðfjárræktar í landinu.

Ályktunin hljóðar svo í heild sinni:

„Sveitarstjórn Húnavatnshrepps skorar á sláturleyfishafa að borga ásættanlegt afurðaverð til sauðfjárbænda nú í haust. Lágt afurðaverð mun koma mjög illa niður á sauðfjárbændum í sveitarfélaginu. Í Húnavatnshreppi er stór hluti íbúa sem byggir afkomu sína af sauðfjárbúskap.

Ljóst er að lágt afurðarverð er í raun skerðing á rekstrarafkomu sauðfjárbænda og óvíst hversu mörg bú koma til með að standa undir því þar sem þolmörkum hefur þegar verið náð.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps, skorar á stjórnvöld, að finna leiðir til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins, svo sem með niðurgreiðslu á flutningskostnaði á ull og sláturfé. Með því móti er komið á móts við þann mikla kostnað sem sláturleyfishafar og aðrir úrvinnsluaðilar sauðfjárafurða, bera vegna flutninga og sá sparnaður myndi skjóta fastari stoðum undir rekstur afurðastöðva.

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps telur að tækifæri felist í aukinni samvinnu landbúnaðar og ferðaþjónustu sem hægt sé að nýta mun betur en gert er í dag. Leggja þarf meiri áherslu á markaðssetningu og vöruþróun innanlands fyrir þann mikla fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim. Tryggja þarf að bændur geti fengið slátrað á hóflegu verði, vilji þeir sjálfir afsetja sínar eigin afurðir.

Sveitarstjórn skorar á forystumenn sauðfjárbænda, sláturleyfishafa og ráðamenn þjóðarinnar að finna framtíðarlausn á þessum alvarlega vanda sem sauðfjárræktin er í.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir