Skrifað undir viljayfirlýsingu að Menningarhúsi á Sauðárkróki

Á Atvinnulífssýningunni sem haldin var á Sauðárkróki um helgina skrifuðu Stefán Vagn Stefánsson, formaður byggðaráðs Svf. Skagafjarðar og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undir viljayfirlýsingu þess efnis að stjórnvöld leggi fjármuni í byggingu menningarhúss á Sauðárkróki sem ætlað er að rísi á Flæðunum í náinni framtíð.
Stefán segir að með undirskriftinni sé ríkið og ríkisstjórnin í raun búið að setja menningarhús á Sauðárkróki inn í fjármálaáætlun hjá sér og eyrnamerkja því verkefni fjármagni árin 2020 2021 og 2022, tæpum 350 milljón krónur. „Það þýðir í raun og veru að sveitarfélagshlutinn, sem er 40%, gefur okkur möguleika á því, ef það er vilji hjá sveitarstjórninni að nota þá fjármuni, að hefjast handa árið 2019,“ segir Stefán Vagn og bendir á að stóru tíðindin í þessu séu þau að búið er að tryggja fjármagns til verksins.
Stefán segir að farið verði í hönnunarsamkeppni á húsinu en það gæti tekið talsverðan tíma. Ef vel gengur ætti hins vegar að vera hægt að hefja framkvæmdir seinni parts árs 2019.
Að sögn Stefáns er þarfagreiningahópur fyrir húsið enn að störfum en það sem horft hefur verið til er að í því muni vera skrifstofuhúsnæði fyrir söfnin, Byggðasafnið, Byggðasögu, bókasafnið og fleiri, með skrifstofuaðstöðu þar. Þá verða væntanlega einhverjir salir, fjölnota salur og svo leikhússalur með hallandi gólfi og alvöru sviði.
Nánar verður rætt við Stefán um menningarhúsið í næsta Feyki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.