Skýrsla um ár og læki á Víðidalstunguheiði
Rannsóknum á vötnum ám og lækjum á Víðidalstunguheiði, sem fram fóru á vegum Veiðifélags Víðidalstunguheiðar og Veiðimálastofnunar sumrin 2015 og 2016, er nú lokið. Víðidalstunguheiði liggur upp af Víðidal og teygir sig til suðurs inn að Stórasandi. Á heiðinni eru fjölmörg vötn og tjarnir auk áa og lækja en Víðidalsá og Fitjá eiga þar upptök sín. Í skýrslunni er gerð grein fyrir rannsóknum á útbreiðslu, tegundasamsetningu og þéttleika laxfiska í straumvötnum á Víðidalstunguheiði.
Í Bergá, Öxná, Haugakvísl, Sandfellskvísl og Dauðsmannskvísl var sýnum af fiskistofnum aflað með rafveiðum. Bleikja var ríkjandi tegund í ám og lækjum austan Víðidalsár en bleikja fannst á öllum stöðum nema í Haugakvísl. Fimm árgangar bleikju fundust (vorgamlar – fjögurra ára) en þéttleiki þeirra var í flestum tilfellum lítill (0 - 7,8 seiði/100m2) nema í Sandfellskvísl (28,8 seiði/100m2). Kynþroska bleikjur, 10,5 cm hængur og 12,0 cm hrygna fundust í Sandfellskvísl. Í læk úr Kolgrímsvötnum veiddust fimm urriðar á stöng. Stærð þeirra var á bilinu 19,7 – 51,5 cm og aldursbilið 4 – 12 ára.
Veiði er bæði stunduð í vötnum og ám á heiðinni. Mikilvægt er að skrá veiði og fá veiðimenn til að taka hreistursýni úr afla. Með því fengist gleggri mynd af silungastofnum á heiðinni, t.d. veiðiálagi og vexti.
Rannsóknin var studd af sveitarfélaginu Húnaþingi vestra, auk þess sem styrkur fékkst frá Uppbyggingasjóði Norðurlands vestra
Skýrslan var unnin af Friðþjófi Árnasyni og Inga Rúnari Jónssyni og má kynna sér hana hér.