Skýrsla um stöðu heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi vestra
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa látið vinna skýrslu um stöðu heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi vestra. Var hún unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri en vinnsla hennar var áhersluverkefni sóknaráætlana landshluta árið 2017.
Í skýrslunni er dregin saman staða heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi vestra og hún borin saman við samanburðasvæði sem er Vestfirðir. Gagna var aflað upp úr ársskýrslum heilbrigðisstofnana og öðrum fyrirliggjandi gögnum en að auki tóku stofnanirnar og sjúkrahúsin saman gögn sérstaklega fyrir þessa samantekt. Ennfremur voru tekin sérfræðingaviðtöl við átta aðila, fyrst og fremst til gagnaöflunar.
Á vef SSNV kemur fram að helsti munur á samanburðarsvæðinu og Norðurlandi vestra sé að á Vestfjörðum er skurðlæknir og fæðingarþjónusta sem ekki er til staðar á Norðurlandi vestra. Á Norðurlandi vestra búa nánast engir íbúanna í minna en klukkustundar fjarlægð frá sérhæfðu sjúkrahúsi með aðgang að skurðstofu en annars staðar á landinu er hlutfallið frá 50-100%. Þess ber að geta að skurðstofa er til staðar á Sauðárkróki en hún er nær eingöngu notuð í mjög einföld verkefni. Talið er brýnt að koma þeirri aðstöðu í betri not og auka þar með öryggi íbúa í landshlutanum.
Einnig kemur fram í skýrslunni að sjúkraflutningar hafa aukist á svæðinu öllu. Tveir sjúkrabílar eru til staðar á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga. Oft þarf að keyra með sjúklinga langar leiðir og hætt er við að upp komi mönnunarvandi.
Ekki hefur tekist að fastráða heimilislækna á Blönduósi og líklega verður ekki auglýst eftir heimilislæknum á næstunni. Talið er að núverandi fyrirkomulag þar sem læknar í verktöku sinna svæðinu hafi gefist ágætlega en fastráðnir starfsmenn væri þó betri kostur þar sem það tryggir meiri samfellu í samskiptum læknis og sjúklings.
Á Sauðárkróki og á Hvammstanga eru dagvistunarúræði fyrir eldri borgara til staðar en kallað er eftir slíkum úrræðum á Blönduósi. Þá hefur sálfræðiþjónusta aukist á Sauðárkróki og Blönduósi en á Hvammstanga eru þau mál skemmra á veg komin en eru þó í góðu ferli. Kallað er eftir þjónustu geðlækna á svæðinu og það talið brýnasta verkefnið sem nú blasir við.
Skýrsluna má nálgast hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.