Slappaðu af á árshátíð eldri nemenda Varmahlíðarskóla
Árshátíð eldri nemenda Varmahlíðarskóla verður haldin í Miðgarði föstudaginn 13. janúar nk. kl. 20. Á árshátíðinni verður boðið upp á leiksýningu og svo verður dansleikur síðar um kvöldið.
Nemendur Varmahlíðarskóla ætla að flytja leikstykkið Slappaðu af eftir Felix Bergsson í útsetningu Jóns Ólafssonar. Leikstjóri er Helga Rós Sigfúsdóttir.
„Söngleikurinn gerist á sjöunda áratugnum og fjallar um baráttu tveggja unglingaklíka, vinstri og hægri, ástir og átök og sameiginlega kvenréttindabaráttu. Leikritið tekur á alvarlegum málefnum á gamansaman hátt. Tónlistin í leikritinu er valin með tilliti til tíðarandans og má þar finna þekkta slagara á borð við Signed, Sealed, Delivered, Stop! In the Name of Love, Rescue Me og vitanlega titillagið Slappaðu af!“ segir á heimasíðu Varmahlíðarskóla.
Að sýningu lokinni verður boðið upp á kaffiveitingar í Varmahlíðarskóla og eru þær innifaldar í miðaverði, sem eru 2500 kr. Vakin er athygli á því að ekki eru kortaposar á staðnum og frítt er fyrir börn á grunnskólaaldri.
Grunnskólaball 8.-10. bekkinga hefst kl. 22:30 til 1:00. Sigvaldi og félagar munu leika fyrir dansi. Aðgangseyrir á ballið er 1000 kr.
Frístundastrætó ekur frá Sauðárkróki og Grunnskólanum austan vatna, fyrir þá sem vilja nýta sér þann kost.