Sláturbasar til styrktar starfi Krabbameinsfélagins

Margar hendur vinna létt verk. Saumað af kappi fyrir iðrin. Aðsend mynd.
Margar hendur vinna létt verk. Saumað af kappi fyrir iðrin. Aðsend mynd.

Sláturbasar Krabbameinsfélags Hvammstangalæknishéraðs verður haldinn á morgun, þann 13. október. Basarinn verður haldinn í Félagsheimilinu á Hvammstanga og hefst hann klukkan 13:00.

Krabbameinsfélagið í héraðinu hefur, allt frá árinu 1991, staðið fyrir sláturgerð og sláturbasar til styrktar starfi félagsins og er hugmyndin komin frá fyrrverandi formanni félagsins, Sigríði Karlsdóttur.

Sláturgerðin sjálf fór fram á miðvikudag en þá mættu sjálfboðaliðar til starfa í félagsheimilinu á tilteknum tíma til að leggja sitt af mörkum við sláturgerðina. Auglýst var eftir fólki með fyrirvara en stjórn félagsins sendir fréttabréf á öll heimili á starfssvæðinu og tilkynnir hvenær sláturgerðin og basarinn eru og býður þannig fólki að taka þátt og leggja til á basarinn. Kaupfélag Vestur-Húnvetninga og sláturhús KVH styrkja félagið með því að gefa allt hráefni til sláturgerðarinnar og einnig styrkir Félagsheimilið á Hvammstanga félagið með því að heimila endurgjaldslaus afnot af félagsheimilinu.

Soffía Anna Steinarsdóttir, formaður félagsins, segir að sláturgerðin og basarinn hafi notið mikilla vinsælda. Sláturbasarinn er haldinn annað hvert ár en hitt árið selur félagið ýmsa smávöru til fjáröflunar, s.s. málbönd, penna og fleira. Auk slátursins fær félagið ýmislegt annað á basarinn, t.d. kaffibrauð, kökur, sultur, harðfisk og fleira þess háttar og einnig ýmiss konar handavinnu. Allt þetta er gefið af einstaklingum á starfssvæði Krabbameinsfélagsins og segir Soffía Anna að félagið njóti einstaks velvilja.

Í ár er félagið 50 ára og svo skemmtilega vill til að basarinn verður einmitt haldinn á afmælisdaginn, 13. október. Er því stefnt að því að hafa basarinn sem veglegastan að þessu sinni.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir