Sögudagur á Sturlungaslóð 16. ágúst

Hinn árlegi sögudagur á Sturlungaslóð í Skagafirði verður laugardaginn 16. ágúst. Sögudagurinn verður nú haldinn í sjötta sinn og hefur verið farið vítt og breitt um Skagafjörðinn undanfarin ár, Víðimýri, Hólar, Miklibær, Örlygsstaðir, Fosslaug og víðar.

Dagurinn byrjar með því að safnast verður saman í Selvík á Skaga kl 14 þar sem Helgi Hannesson leiðsögumaður og framhaldsskólakennari mun segja frá Flóabardaga. Félagar frá Grettistaki í Húnaþingi vestra verða á staðnum og munu sjá um að börnin hafi eitthvað fyrir stafni. Boðið verður upp á kaffi og djús.

Til að komast í Selvíkina er beygt að félagsheimilinu Skagaseli og ekið meðfram ströndinni (til baka) að víkinni. Tekur um 45-50 mín frá Króknum.

Um kvöldið kl. 20 hefst Ásbirningablótið í Kakalaskála í Kringlumýri hjá Sigurði Hansen. Erindi flytja Einar Georg Einarsson kennari og sagnaþulur frá Laugarbakka og Þór Hjaltalín minjavörður Norðurlands vestra. Bára Grímsdóttir og Chris Foster verða með tónlistaratriði. Veislustjóri verður Sigurður Hansen og í boði verða kræsingar að hætti miðaldamanna framreiddar af Hótel Varmahlíð.

Tekið er við pöntunum í síma 453 8170 fyrir kl. 20 föstudaginn 15. ágúst.

Fréttatilkynning

 

Fleiri fréttir