Söguleg vigt horfin af sínum stað

Hér má sjá mynd af umræddri vigt sem prýðir forsíðu Skagfirðingabókar 2016. MYND RÖKKVI SIGURÐSSON
Hér má sjá mynd af umræddri vigt sem prýðir forsíðu Skagfirðingabókar 2016. MYND RÖKKVI SIGURÐSSON

Blaðamaður hnaut um færslu á Facebook, eins og sennilega fleiri, þess efnis að gamla vigtin sem fylgt hefur Verslun Haraldar Júlíussonar frá upphafi er ekki lengur á sínum stað á hillunni fyrir ofan hurðina. Í Skagfirðingabók frá árinu 2016 prýðir vigtin forsíðu og um hana er sagt að Haraldur Júlíusson hafi keypt vigtina 1919 áður en hann opnaði búðina og notað fram til 1941 og í bókinni segir að vigtin sé með sínum hætti konungleg. Feykir heyrði í Guðrúnu dóttir Bjarna og systkinin höfðu þetta að segja um málið;

„Verslun Haraldar Júlíussonar á Sauðárkróki var ein elsta starfandi verslun landsins þegar kaupmaðurinn aldni, Bjarni Haraldsson, lét staðar numið og lokaði versluninni tæplega 92 ára að aldri. Hann lést stuttu síðar, árið 2022. Húsið stendur enn óhreyft í sömu mynd og áður, með innanstokksmunum og gömlu innréttingunum og rétt að minna á innréttingar verslunarinnar njóta verndar og styrkur hefur fengist til endurbóta á þeim. Það er svo aldrei að vita á hvaða tímapunkti menningarsögulegt mikilvægi þess að verslunin opni dyr sínar aftur með einum eða öðrum hætti rennur upp fyrir áhugasömum einstaklingum,“ segir Guðrún dóttir Bjarna heitins.

Fyrst og síðast viljum við í fjölskyldunni fá vitneskju um það ef að gripurinn birtist á sölusíðum eða fólk verður með öðrum hætti vart við hvar hann gæti verið. Tilgangurinn er fyrst og fremst að sjá til þess að vigtin sem er órjúfanlegur hluti af sögu hússins verði þar áfram eins og hún hefur verið í rúmlega 100 ár. Þá væri verra ef munirnir sem mestu skipta væru ekki lengur í versluninni. Með virðingu og þakklæti til allra þeirra sem sýnt hafa þessu áhuga og hjálpað okkur til að vigtin finnist,“ börn Bjarna Haraldssonar.“

Fólk sem hefur einhverjar upplýsingar getur sent skilaboð á eftirfarandi netföng: helgabjarna59@gmail.com eða gunnab2509@gmail.com

Fleiri fréttir