Söngurinn var góður og hljóðfæraleikurinn stórbrotinn / EIKI HILMIS

Klósöpp af Eika.
Klósöpp af Eika.

Það ættu nú flestallir sem komnir eru til vits og ára hér fyrir norðan að tengja við tónlistarmanninn Eika Hilmis, fullu nafni Eirík Hilmisson, en hann gerði hér áður víðreyst um landið með hljómsveitinni Týról og að sjálfsögðu Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar. Eiki var magnaður með gítarinn en segir sjálfur að hans undurfagra söngrödd hafi alltaf verið sinn helsti styrkur í tónlistinni.

Eiki er fæddur á Húsavík árið 1963. „ Þeir reyndu að ala mig upp í eitt ár á Húsavík, átta ár í Borganesi og í 29 ár á Sauðárkróki en þar fóru fremst í flokki foreldrar mínir, þau Hilmir Jóhannesson og frú Hulda Jónsdóttir. Ég ætla ekkert að tjá mig um hvernig til tókst en miðað við hæð hef ég alltaf talið mig vera ó-UPP-alinn og reynt að haga mér samkvæmt því.“

Eiki og Bergrún búa nú í Reykjavík fyrir sunnan og starfar hann sem hljóðmaður við ýmsa þáttagerð hjá Stöð2 og Stöð2Sport. Spurður út í sín helstu tónlistarafrek svarar hann: „Ég var svo heppinn að fá að vinna með Lobba Spör í nokkur skipti og er einn af örfáum sem hafa notið þess heiðurs.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? Gamalt lag sem er við ljóðið Heimþrá.

Uppáhalds tónlistartímabil? 67 til 78.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Verð alltaf sperrtur þegar sveitungar mínir í Úlfur úlfur taka lagið

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mamma og Pabbi sungu gjarnan á kvöldin hin og þessi lög. Það voru mjög skemmtilegir tónleikar þar sem mamma söng og pabbi spilaði á gítarinn og söng einskonar keðjuradda millitóna bakraddir. Söngurinn var góður og hljóðfæraleikurinn stórbrotinn. Pabbi spilaði öðruvísi en allir aðrir á gítar, alltaf svokallað fingerpick, nema hann spilaði oftast einskonar laglínu á bassastrengi, svo ýmist sló hann eða pikkaði á þá strengi sem voru lausir. Hann gat spilað hvaða lag sem okkur datt í hug, lét engan bilbug á sér finna, spilaði hratt og örugglega á bassastrengi laglínu, hitt flaut með. Alveg magnað. Ég veit að hann hefði getað spilað Hótel California með rödduðu gítarsóló með báðum hljómunum ef einhver hefði beðið hann um það.

Hver var fyrsta platan sem þú keyptir þér? Held að það hafi verið Dark Side of the Moon.

Hvaða græjur varstu þá með? Fender Bassman 100, Fender deluxe silvertop, Fender twin reverb og Gibson Les Paul.

Hver var fyrsta lagið sem þú mannst eftir að hafa fílað í botn? Take Another Piece of my Heart hugsa ég.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Lög sem hafa yfirþyrmadi lýsingarorð í texta.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Eitthvað gott með Lobba.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Hroturnar í Bergrúni.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Einmitt núna langar mig að fara til California og fara á tónleika sem heita The Classic. Þar spila meðal annarra Fleerwood Mac ,Eagles, Steely Dan, Doobie's og Earth Wind & Fire.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Dire Straits og Pink Floyd.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Man það ekki.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Ég segi bara Dark Side þótt ég geri mér enga grein fyrir því hvað plata það væri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir