Spennandi tómstundanámskeið

Faxatorgið á Sauðárkróki iðar af lífi þessa dagana, eins og segir á heimasíðu Farskólans, sem er þar til húsa. Mikið úrval tómstundanámskeiða er auglýst um þessar mundir, auk þess sem nám og þjálfun í bóklegum greinum hefst næstkomandi mánudag.

Boðið er upp á námskeið í hundaþjálfun, og er það annað slíkt námskeið sem haldið er undir leiðsögn Steinars Gunnarssonar hundaþjálfara, sem er sérfræðingur í þjálfun lögregluhunda. Þá er boðið upp á dyravarðarnámskeið, jólakortagerð, bólstrun, jólakonfektgerð, saumanámskeið hjá Kidku og Argentínsk vín og mat, en öll verða þessi námskeið fyrir jól.

Að sögn Halldórs Gunnlaugssonar eru einnig framundan jóganámskeið eftir áramót og þrjú námskeið voru nýlega auglýst sem eftir á að dagsetja en hefjast á næstunni, það eru námskeið í nútvitund, detox og námskeið um gigt og grasalækningar.

Herslumuninn vantar upp á skráningar í nám og þjálfun, en þar eru kenndir fyrstu áfangar í íslensku, ensku, dönsku og stærðfræði og fæst námið metið til eininga. Tilvalið fyrir alla 23 ára og eldri sem vilja hefja nám að nýju í þægilegu umhverfi.

Halldór segir að einnig standi til að bjóða upp á tvö námskeið á svæðinu sem kallast Aukin starfsgleði og sátt. Leiðbeinandi á þeim er Jóhanna Magnúsdóttir guðfræðingur og hafa þessi námskeið slegið í gegn á þeim vinnustöðum þar sem fólk er að vinna með fólk. Á dögunum sóttu svo 12 manns Dale Carnige námskeið hjá Farskólanum en til stendur að boðið verði upp á það árlega.

Fleiri fréttir