Spennusigur Stóla í Síkinu

Javon Anthony Bess var atkvæðamestur Tindastólsmanna í kvöld er hann skoraði 20 stig. Mynd: Hjalti Árna.
Javon Anthony Bess var atkvæðamestur Tindastólsmanna í kvöld er hann skoraði 20 stig. Mynd: Hjalti Árna.

Það var hart tekist á í Síkinu á Króknum í kvöld þegar Keflvíkingar sóttu Stóla heim í VÍS bikarkeppninni í körfubolta. Eftir góðan leik gestanna í fyrri hálfleik snéru leikmenn Tindastóls taflinu við í þeim seinni og lönduðu sætum baráttusigri í höfn og unnu með 84 stigum gegn 67.

Bæði lið komu vel stefnd til leiks í kvöld og ljóst að um hörku rimmu yrði að ræða. Keflvíkingar leiddu frá fyrstu mínútu án þess að ná að hrista gestgjafana af sér og voru yfir 25 – 22 eftir fyrsta leikhluta. Minna var skorað í þeim næsta þar sem gestir skoruðu 16 stig en Stólar aðeins 14 og staðan í hálfleik því 41- 36.

Sömu spennu og skemmtun var áhorfendum boðið upp á í seinni hálfleik þar sem liðin skiptust á að skora en heldur söxuðu heimamenn á forskot Suðurnesjamanna og náðu loks að komast yfir þegar komið var fram yfir miðjan þriðja leikhluta 49-48 og létu það forskot ekki úr hendi það sem eftir lifði leiks.

Stólar náðu að halda Keflvíkingum í 11 stigum í þriðja leikhluta með góðum varnarleik og ekki voru þeir síðri í sókninni og komu 23 stigum á töfluna og staðan vænleg fyrir heimamenn þegar honum lauk 59-52.

Áfram var haldið í þeim fjórða og sama barátta upp á teningnum í lokahlutanum. Boðið var upp á eðal körfubolta tveggja frábærra liða en þrátt fyrir nokkra góða spretti gestanna vörnuðu Stólar þeim ætíð að koma sér inn í leikinn meðan boltinn rataði sína réttu leið hjá heimamönnum sem unnu leikinn sannfærandi með 84 stigum gegn 67 eftir að hafa skorað 25 stig gegn 15 Keflvíkinga í lokaleikhluta.

Jaka Brodnik reyndist sínum gömlu félögum í Tindastól erfiður í kvöld en hann gerði 21 stig í leiknum, stigahæstur gestanna en Dominykas Milka kom næstur með 17.

Í liði Tindastóls var Javon Anthony Bess stigahæstur með 20 stig, Pétur Rúnar og Taiwo Hassan Badmus með 15 og Sigtryggur Arnar 13.

Oft hafa stuðningsmenn Tindastóls verið bjartsýnir í byrjun körfuboltatímabils en sjaldan eins og eftir þennan leik. Stólar litu eins vel út og hægt er að óska sér í þeirra öðrum leik þessa leiktíðar og gáfu áhorfendum von um skemmtilegt framhald. Erlendu leikmenn Tindastóls komu vel út í kvöld og smellpassa í þéttingslið heimamanna og ekki er slæmt fyrir Stóla að vera komnir aftur með Sigtrygg Arnar og þá má ekki gleyma seiglu Sigurðar Þorsteinssonar sem er betri en enginn í Tindastólsbúningnum.

Áfram Tindastóll!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir