Spes opnar á sunnudaginn

Spes sveitamarkaður með sögualdarívafi opnar þann 17. júní nk. í Grettisbóli á Laugarbakka. Opnað verður kl. 13:00 og verður opið í sumar mánudaga til laugardaga milli kl. 13:00 og 18:00. Eins og verið hefur verður selt á markaðinum „þjóðlegt“ handverk og matvæli unnin í héraðinu.

Spes sveitamarkaður er samstarfsverkefni Grettistaks ses. sem á húsnæðið og aðstöðu til útivistar í Grettisgarði, Verslunarminjasafns Bardúsa sem velur handverkið, og Spes félags um sveitamarkað. Bardúsa og Farskóli Norðurlands vestra hafa í vetur staðið fyrir margvíslegum handverksnámskeiðum og því verður spennandi að sjá hvort nýir vöruflokkar munu bætast við á markaðnum. Lítill pallur er í smiði í Grettisbóli þar sem handverkfólk mun sýna list sína á lífandi hátt í sumar.

Innanhúss-leiksvæði fyrir börn býður upp á búninga í víkingastíl og „gamaldags“ leikföng, en utanhús er m.a. stór steinhringur með eldstæði sem er tilvalinn til samkomu eða til að snæða nestið sitt.

Þá er að því stefnt síðar í mánuðinum að setja upp sýninguna Ár og kýr (365 kúamyndir eftir Jón Eiríksson á Búrfelli) í Grettisbóli. Landsvirkjun á verkið en mun lána það í sumar til Laugarbakka. Gestir Spes sveitamarkaðar og allir áhugasamir munu þannig fá að njóta myndlistar í bland við aðra menningu. Það verður nóg að gera í Grettisbóli í sumar.

Fleiri fréttir