SSNV auglýsa eftir framkvæmdastjóra
Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) auglýsa eftir framkvæmdastjóra. Eins og komið hefur fram í Feyki var staðan einnig auglýst í september sl. en enginn þeirra sem þá sóttu um ráðinn. Katrín María Andrésdóttir gegndi starfinu tímabundið í námsleyfi Jóns Óskars Pétursson en hann sagði starfinu lausu í haust. Bjarni Jónsson, fv. formaður stjórnar mun gegna starfinu þar til gengið hefur verið frá ráðningu.
Í auglýsingunni, sem m.a. birtist í Morgunblaðinu um helgina, segir að leitað sé eftir einstaklingi sem geti unnið sjálfstætt, sýni frumkvæði og hafi góða hæfileika í mannlegum samskiptum. Háskólamenntun sem nýtist í starfi er skilyrði og æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu á sveitarstjórnarmálum og rekstri. Umsóknarfrestur er til 24. nóvember.