SSNV kallar aðgerðir ríkisstjórnarinnar niðurskurðareinelti
Á fundi stjórnar SSNV sem haldinn var þann 15. desember 2010 var m.a lagt fram yfirlit um þróun fjárveitinga af fjárlögum til stofnana og verkefna á Norðurlandi vestra á undanförnum árum. Eftirfarandi bókun var samþykkt á fundinum.
Stjórn SSNV lýsir yfir miklum vonbrigðum yfir þeim mikla niðurskurði sem stofnanir og verkefni á starfssvæði SSNV þurfa að taka á sig í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2011. Það sætir mikilli furðu að Norðurland vestra sem búið hefur við mikla byggðaröskun og neikvæðan hagvöxt undanfarin ár skuli vera gert að taka á sig meiri hlutfallslegan niðurskurð en almennt gerist hvort sem um er að ræða heilbrigðisstofnanir, framlög til vegamála, niðurgreiðslur til húshitunar eða einstakara stofnana. Slíkt er varla hægt að túlka á annan veg en ríkjandi stjórnvöld láti sig íbúa og byggð á Norðurlandi vestra litlu máli skipta. Minnt er á að meint góðæri árana fyrir hrun kom lítið fram á svæðinu með tilheyrandi veikingu í byggðalegu tilliti. Þrátt fyrir það er niðurskurðarhnífnum beitt af fullum þunga á svæðinu þvert á fyrirheit um þeim skuli hlíft sem hvað höllustum fæti standa. Stjórnin skorar á ríkisstjórn Íslands og alþingismenn NV kjördæmis að standa með sveitarfélögum, atvinnulífi og íbúum á Norðurlandi vestra og láta af því sem kalla má niðurskurðareinelti, og m.a birtist í frumvarpi til fjárlaga ársins 2011.