SSNV og FM Trölli í samstarf um hlaðvarpsþætti

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og FM Trölli á Siglufirði hafa undirritað samstarfssamning um framleiðslu á 30 hlaðvarpsþáttum sem jafnframt verða sendir út á útvarpsstöðinni FM Trölli. Hér er um að ræða nýjung í starfi samtakanna og eru þættirnir hugsaðir til kynningar á íbúum Norðurlands vestra og þeim fjölmörgu áhugaverðu verkefnum sem þeir taka sér fyrir hendur. Frá þessu segir á vef SSNV.
Þættirnir verða viðtalsþættir og tekur FM Trölli að sér eftirvinnslu og birtingu þáttanna bæði á útvarpsstöð sinni og á hlaðvarpsveitum en starfsmenn SSNV sjá um að finna viðmælendur og taka viðtölin. Áætlað er að fyrsta viðtalið fari í loftið í lok júní og þau verði svo birt vikulega. Tekið er á móti ábendingum um áhugaverða viðmælendur á netfanginu ssnv@ssnv.is. Verkefnið er liður í kynningarátaki samtakanna.
FM Trölli er útvarpsstöð og vefmiðill sem sendur er út frá Siglufirði. Einnig sendir Trölli út þætti frá Hvammstanga og í undirbúningi er að hefja útsendingar frá Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.