Staðsetning rafhleðslustöðva í Skagafirði

Hraðhleðslustöðin stendur til bráðabirgða við spennuvirki Landsnets ofan Varmahlíðar. Mynd: PF.
Hraðhleðslustöðin stendur til bráðabirgða við spennuvirki Landsnets ofan Varmahlíðar. Mynd: PF.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur fengið úthlutað styrk til uppsetningu tveggja hraðhleðslustöðva í Varmahlíð og á Sauðárkróki á árinu 2017. Á fundi byggðaráðs fyrir helgi var tekin fyrir bókun frá fundi umhverfis- og samgöngunefndar þar sem fram komu mögulegar staðsetningar á hraðhleðslustöðvum.

Lagði umhverfis- og samgöngunefnd það til að hraðhleðslustöðvar verði staðsettar við sundlaugar á Sauðárkróki og í Varmahlíð. Byggðarráð ákvað að fela Ingvari Gýgjari Sigurðssyni hjá þjónustumiðstöð Svf. Skagafjarðar að halda áfram með málið.

Það vakti athygli fyrir skömmu þegar leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur var gerð fær fyrir rafbíla en þá ók Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, ásamt fylgdarliði norður á rafmagnsbílum til að sækja Samorkuþing, sem fram fór á Akureyri.

Á heimasíðu ON segir að 16 hlöður séu nú á landinu

Árið 2016 bættust við tvær hlöður á Akureyri og ein við Hellisheiðarvirkjun og í ár hafa Staðarskáli, Blönduós og Varmahlíð bæst í hópinn. „Við ætlum að loka hringnum um Ísland, svo hægt verði að fara allan hringveginn á rafmagnsbíl,“ segir á on.is.

Ökumönnum rafbíla skal samt bent á að rafhleðslustöðin í Varmahlíð er ekki í byggðinni sjálfri heldur við tengivirki Landsnets ofan Varmahlíðar rétt ofan bæinn Brekku en þar var rafhleðslustöðinni komið fyrir til bráðabirgða til að Bjarni Már og félagar kæmust á Samorkuþingið.

Fleiri fréttir