Stafasúpan stendur í íslenskufræðingnum Friðgný

Friðgnýr horfir til hafs en hann hefur áhyggjur af tungunni.
Friðgnýr horfir til hafs en hann hefur áhyggjur af tungunni.

Hringt var úr Fljótum í ritstjórn Feykis á dögunum. Í símanum var Friðgnýr Þórmóðsson frá Hraunkoti og var honum nokkuð niðri fyrir. Má með sanni segja að stafasúpan hafi staðið í honum. Samtalið fer hér á eftir...

„Góðan daginn, þetta er á Feyki.“
„Já, sæll vertu og blessaður, þetta er hérna hann Friðgnýr Þórmóðsson, hérna á Hraunskoti í Fljótum, ekki í Stíflu e-he-he-he.“
„Sæll Friðgnýr, það er blessuð blíðan. Fer ekki vel um ykkur þarna útfrá?“
„Jú blessaður vertu, hér hefur ekki hreyfst hár á höfði vikum saman, þetta er nú meira blessunar haustið en við áttum það nú inni eftir þessa sumarnefnu e-he.“
„Jú segðu, en hvað segirðu, hvert var erindið?“
„Ja, ég hringi nú út af þessari stafasúpu.“
„Núnú, fer hún ekki vel í þig?“
„Nja, nei, ekki get ég nú kannski sagt það.“
„En þetta er nú alveg ágæt skemmtun...“
„Hvað meinarðu „skemmtun“? Hvað ertu að fara?“
„Ertu ekki Friðgnýr Þórmóðsson íslenskufræðingur? Ég reiknaði ekki með öðru en að þið áhugamenn um íslensku mistuð aldrei af þætti?“
„Hvað þætti!?“
„Nú Kappsmáli, íslenskuþættinum á RÚV sem er hérna alltaf á föstudagskvöldum?“
„Já sú bévítans vitleysa... nei vinur, ég horfi ekki á þetta höfuðborgarlið slá sér á lær og hlæja að vitleysunni í sjálfu sér. Ég ætti nú ekki annað eftir. Ég sofnaði einu sinni yfir þessu, skal ég þér segja, og vaknaði upp við að hann þarna Marteinn þarna þarna, já, var að fara yfir fréttir vikunnar. Ég hélt ég væri kominn á hérna vitleysingjaspítala... en það má nú kannski ekki nota það orð... jæja, ég hafði semsagt verið plataður til að horfa á þennan pilt með því að svæfa mig yfir öðrum heimasmíðuðum höfuðborgarþætti. Hvenær hefur einhver utan að landi verið í þessu Kappsmáli. Já, svaraðu!?“
„Uuu, ég horfi nú svo sjaldan á þetta... en mig rámar í að það hafi verið þarna ansi skemmtilegur náungi sem sagðist koma frá Hólmavík.“
„Frá Hólmavík já! Það var þá... og kannski verið skemmtilegasti maðurinn sem hefur sést í þessum þáttum e-he-he?“
„Hugsanlega.“
„Það er sem ég segi; við, þetta fólk hér úti á landi, sem strögglar allt sitt líf en hefur komið fótunum undir þetta hyski fyrir sunnan, já, við erum ónýtt auðlind þegar kemur að skemmtiefni í sjónvarpi.“
„Jæja Friðgnýr, en þú sagðist hringja út af stafasúpu?“
„Já, það var út af þessari frá Maggi. Ég sýð mér þessa ágætu súpu af og til þegar þröngt er í búi. Nú eins og þú komst inn á hér áðan þá er ég íslenskufræðingur, og hérna já, komst að því nú á dögunum að það eru engir íslenskir stafir í þessari stafasúpu – já og það vantar algjörlega breiðu sérhljóðana.“
„Og hvað?“
„Hvað meinarðu „og hvað?“ Þetta er bara stórhættulegt íslenskri tungu. Þessi stafasúpa er sérstaklega stíliseruð, já eða beint að æsku landsins. Ég óttast um framtíð íslenskunnar þegar ég heyri starfsmann fjölmiðils ekki bera skynbragð á þá ógn sem stafar af stafasúpunni.“
„Já þú segir nokkuð Friðgnýr. En væri ekki erfitt að láta þessar kommur yfir á, é og svo framvegis haldast á réttum stað?“
„Uuuu, það má vera... en það er bara tæknileg útfærsla, það má ekki láta það bitna á tungunni... eh, en hérna, tíðin hefur nú bara verið góð hér hjá okkur og ekki yfir neinu að kvarta sosum. Er ekki svo allt gott að frétta þarna innfrá ... e-he-he?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir