Stanslaust fjör alla helgina
Skagfirskir Lummudagar hefjast í dag, fimmtudaginn 26. júní, með setningarhátíð við heimavist FNV á Sauðárkróki kl. 17. Þar verður í boðið upp á fiskisúpu og tónlistaratriði, síðan verður slegið upp sundpartýi í sundlaug Sauðárkróks kl. 19 með tónlist og frískandi drykkjum.
Að sögn Ásu Svanhildar Ægisdóttur, framkvæmdastjóra hátíðarinnar, verður hátíðin með hefðbundnu sniði í ár. Helsta nýjungin verður loftbolti, sem er alveg nýtt á Íslandi. Í loftboltanum eru stórir glærir boltar sem fólk fer að hálfu leyti inn í og spilar fótbolta og er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna.
„Lummudagar er stórskemmtileg bæjarhátíð sem ég var svo heppin að fá tækifæri til að sjá um í ár. Ég er mjög spennt fyrir þessu og vona að bæjarbúar verði duglegir að sækja viðburðina,“ segir Ása Svanhildur.
Á föstudagskvöldið verður svo uppistand með hinum bráðskemmtilega Pétri Jóhanni á Mælifelli sem enginn ætti að láta framhjá sér fara. Á laugardeginum munu svo skipuleggjendur tónlistarhátíðarinnar Gærunnar kynna þá tónlistarmenn sem þar koma fram eins og í fyrra, en Gæran veður haldin í ágúst.
Enn eru laus borð á götumarkaðinum og eru þeir sem vilja vera með beðnir að skrá sig hjá Ásu Svanhildi í síma 8587211 eða senda póst á asasvanhildur@gmail.com. Dagskráin er nánar auglýst á Feyki.is, í Sjónhorninu og á fésbókarsíðu hátíðarinnar, þar sem allar tímasetningar koma fram.