Stefán Sturla fær góða dóma í Finnlandi

Skagfirðingurinn Stefán Sturla Sigurjónsson rithöfundur, leikari og leikstjóri sem nú býr og starfar í Finnlandi setti upp Græna landið eftir Ólaf Hauk Símonarsson í Wasa teater í vor í sænskumælandi leikhúsinu í Vasa í Finnlandi og fékk gríðarlega góða dóma.

Með aðalhlutverkið fór Borgar Garðarsson, leikmyndina gerði Vignir Jóhannsson og þýðinguna gerði Elín Petersdóttir en hún er dóttir Borgars svo það má segja að þetta hafi verið sannkölluð íslensk sýning.

-Með svona snillinga og bestu sænskumælandi leikara Finnlands, auk Borgars, Anna Grönblom og Gogo Idman, eru manni náttúrulega allir vegir færir, segir Stefán sem var mjög sáttur við útkomuna.

-Við fengum frábæra krítík en Bertel Nygård Vasabladet skrifar; „Texti Ólafs Hauks Símonarsonar er pottþéttur, með sterkar setningar, áhrifamiklar meiningar og tilvísanir sem leiða áhorfandan rétta leið. Hin fallega blanda milli sorgar og gleði er hrífandi... Ég hef hugsað um hvort það var eitthvað sem ekki virkaði í leikstjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar og finn ekkert sem ég get nefnt.“

Og Maria Sandin HBL skrifar; „Fyrir augum okkar varð til mjög sérstakur vinskapur.“

-Græna landið var sýnt 25 sinnum fyrir fullu húsi i vor. En þrátt fyrir þennan góða gang ákvað leikhúsið að halda ekki áfram með sýninguna nú í haust. Ég og leikararnir stofnuðum því leikhóp sem við köllum Teater Loki og fórum í samstarf við leikhúsið með að halda áfram sýningum. Við höfðum samband við leikhúsfólk á höfuðborgarsvæðinu... alltso í Helsinki... og viðbrögðin voru ánægjuleg. Við fengum strax boð frá fjórum leikhúsum stórum og smáum, að koma með sýninguna í haust og vetur og sýna hjá þeim. Nú erum við búin að gera samning við Sænska leikhúsið í Helsinki að sýna þar 12 sýningar í október. Þetta er langstæsta sænskumælandi leikhúsið í Finnlandi og því gaman að því að þeir vildu fá okkur sem gestasýningu strax nú í haust. Það er því ekki öll von úti enn fyrir skagfirðinga og aðra íslendinga að koma og sjá þessa uppsetningu í Helsinki, segir Stefán Sturla kampakátur með viðbrögð ánægðra Finna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir