Stefnir í jákvæða rekstrarniðurstöðu þrjú ár í röð í fyrsta sinn frá stofnun sveitarfélagsins

Ánægjulegt er að sjá hversu vel rekstur Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur gengið á árinu 2013, eftir jákvæðan rekstrarlegan viðsnúning sem varð á árinu 2012. Rekstrarniðurstaða síðasta árs hljóðaði upp á 17 m.kr. í hagnað af samstæðureikningi sveitarfélagsins (A + B hluti). Fyrstu 10 mánuðir ársins 2013 sýna að samstæðan skilaði hagnaði upp á um 100 m.kr. sem gefur væntingar um að árið í heild sinni verði gert upp með jákvæðri niðurstöðu. Verður það í fyrsta sinn frá stofnun sameinaðs sveitarfélags árið 1998 sem Sveitarfélagið Skagafjörður er rekið með hagnaði í tvö ár í röð.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2014 gerir ráð fyrir að hagnaður þess verði 77 m.kr. Gangi áætlunin eftir skilar sveitarfélagið þannig jákvæðri rekstrarniðurstöðu samfleytt í 3 ár.
Þess ber að geta að í fjárhagsáætlun ársins 2014 er kominn inn kostnaður vegna allra framkvæmda við viðbyggingu Árskóla og lagfæringar sem þar hafa verið gerðar á eldra húsnæði. Þrátt fyrir það og aðrar framkvæmdir sveitarfélagsins, m.a. lagningu hitaveitu í Sæmundarhlíð og Hegranesi, hitaveituframkvæmdir í Hrolleifsdal, nýja smábátahöfn á Sauðárkróki, gatnagerðarframkvæmdir, umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir við Höfðaborg og víðar. Búið er að framkvæma og eignfæra fyrir um 1,2 milljarða króna á kjörtímabilinu. Áætlað er að stærsta einstaka framkvæmdin á næsta ári verði framkvæmdir við leikskólann Birkilund í Varmahlíð. Skuldahlutfallið á næsta ári verður samkvæmt áætlun 141% sem er innan við þau viðmið um 150% skuldahlutfall sem eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga hefur sett.

Í endurskipulagningu rekstrar og hagræðingaraðgerðum sem ráðist var í á síðasta ári var, m.a. gert ráð fyrir að launahlutfallið í A-hluta á árinu 2014 yrði 57% og hefði þá lækkað úr 66% frá árinu 2011. Þetta markmið næst á árinu 2014 eins og stefnt var að.

Góður árangur í rekstri sveitarfélagsins gerir kleift að gjaldskrár verði ekki hækkaðar í áætlun næsta árs fyrir þjónustu sem snýr að íbúum sveitarfélagsins, einkum og sér í lagi fyrir þá þjónustu sem snýr að fjölskyldum með ung börn og eldra fólki. Með þessu er tryggt að gjaldskrárnar verði enn sem fyrr meðal þeirra allra lægstu á landinu. Jafnframt hefur geta sveitarfélagsins til að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir aukist til muna. Þannig hefur veltufé frá rekstri aukist úr 144 m.kr. frá árinu 2011 í 398 m.kr. í áætlun fyrir árið 2014.

Þessi góði árangur hefur náðst vegna samstillts átaks sveitarstjórnar, starfsmanna sveitarfélagsins og íbúa þess. Eru þeim færðar kærar þakkir fyrir það.

Stefán Vagn Stefánsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir