Stefnt á að byggja um 50 nýjar íbúðir

Séð yfir byggingarsvæði gagnavers á Blönduósi. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.
Séð yfir byggingarsvæði gagnavers á Blönduósi. Mynd: Róbert Daníel Jónsson.

Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er nú á Blönduósi og helst það í hendur við hraða íbúafjölgun síðustu mánuðina. Rætt var við Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóra á Blönduósi, i kvöldfréttum RÚV í gær um þann viðsnúning sem átt hefur sér stað í sveitarfélaginu.

Það sem af er þessu ári hefur íbúafjöldi á Blönduósi aukist um 44 eða 5%. Undanfarin ár hefur lítið sem ekkert verið byggt á staðnum en nú er stefnt á byggja þar um 50 nýjar íbúðir. „Í þessum tveimur götum hérna í kringum okkur er búið að úthluta lóðum fyrir um 28 íbúðir. Það er verið að skoða og það er mjög líklegt að það verði byggt annars staðar fjölbýlishús með 20 íbúðum,“ sagði Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar í samtali við Ríkissjónvarpið í gær.

Valdimar segir að uppbygging gagnavers á Blönduósi hafi einna mest áhrif á þessa þróun en annars konar atvinnulíf sé einnig í sókn, t.d. ferðaþjónusta, og hefur 17 lóðum verið úthlutað undir atvinnuhúsnæði á þessu ári. Valdimar tók við starfi sveitarstjóra á Blönduósi sl. vor og horfir bjartsýnn fram á veginn. . „Það er ekki hægt annað, bara ánægjulegt og gaman að koma inn á þetta svæði í þessum fasa, taka þátt í þessu og fylgja þessu áfram,“ sagði Valdimar í fréttum RÚV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir