Stefnt á að reisa styttu af Vatnsenda-Rósu

Teikning af Rósu Guðmundsdóttur á Vatnsenda í Vesturhópi. Mynd af netinu.
Teikning af Rósu Guðmundsdóttur á Vatnsenda í Vesturhópi. Mynd af netinu.

Stjórn Menningarfélag Húnaþings vestra útskýrir á heimasíðu sinni stóra verkefni félagsins næstu árin en það er að koma upp styttu af Vatnsenda-Rósu á Hvammstanga. Önnur verkefni sem komið verði að hafa það að markmiði að vera fjáröflun fyrir styttuna, eða styðja almennt við framgang menningarstarfs í sveitarfélaginu.

Fram kemur í frétt Menningarfélagsins að Uppbyggingarsjóður Norðurlands vestra hafi styrkt fyrsta áfanga verksins (hönnun, gerð smámyndar, og kynning verksins fyrir íbúum) um 1.200.000 kr. í síðustu úthlutun.

„Fyrir þann styrk erum við afar þakklát. Þessi styrkur dugar samt ekki alveg til að klára þennan fyrsta áfanga verksins. Það bjargast samt einhvern veginn. Myndhöggvarinn Ragnhildur Stefánsdóttir hefur tekið að sér verkið, en hún hefur m.a. gert styttuna af Ingibjörgu H. Bjarnason við skála Alþingis og styttuna af Jóni Ósmann ferjumanni við Héraðsvötnin í Skagafirði, auk fjölda annarra verka,“ segir í fréttinni en fyrirhugað er að klára frumhönnun, kostnaðaráætlun og kynningu fyrir íbúum um næstu páska. Samkvæmt því sem fram kemur í frétt Menningarfélagsins er staðarval styttunnar ekki fullmótað en verður meðal annars til umræðu á fyrrnefndum fundi.

„Hugmyndin er að færa svo sveitarfélaginu styttuna að gjöf þegar hún er uppkomin og auðvitað óskum við náins samstarfs við sveitarfélagið Húnaþing vestra, stofnanir þess og nefndir, á öllum stigum málsins. Eftir að styttan er komin upp viljum við halda árlega Rósuhátíð – hátíð sem fjallar um ástarljóð, ástríðu og ástarsorg, auk þess að halda á lofti þeirri staðreynd að Húnaþing vestra er vagga hins íslenska ástarljóðs, en þegar ástríðan sem rennur í farvegi hinnar húnvetnsku hógværðar flæðir yfir bakka sína verður ljóðið til. Á þann hátt erum við Húnvetningar líkir Bretum. Auk Rósu, hverrar afreki á þessu sviði bera höfuð og herðar yfir alla aðra, má nefna sjálfan Kormák er Kormáks saga fjallar um, en saga sú er í raun safn ástarljóða, og Ólöfu frá Hlöðum (sem í raun var frá Sauðadalsá á Vatnsnesi). Á hátíðina mætti bjóða bæði fræðimönnum og kórum, dönsurum, leikhópum o.s.frv. Með því að hengja Rósuhátíðina við styttuna (og öfugt) styrkist þessi ímyndarsköpun og markaðslega stöðutaka sveitarfélagsins.“

Nánar má lesa um verkefnið á heimasíðu Menningarfélags Húnaþings vestra menhunvest.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir