Stóðsmölun á Laxárdal og Skrapatungurétt framundan

Úr Skrapatungurétt. Mynd:PF
Úr Skrapatungurétt. Mynd:PF

Um næstu helgi, dagana 14. og 15. september, verður hin árlega stóðsmölun í Laxárdal og stóðrétt í Skrapatungurétt í framhaldi af henni. Þessir viðburðir eru jafnan fjölmenni og eru allir hjartanlega velkomnir að slást í hóp með gangnamönnum á Laxárdal og upplifa gleðina með heimamönnum.

Það er enginn annar en Skarphéðinn Einarsson, kórstjóri Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps, sem er ferðamannafjallkóngur og mun hann sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni.

Gestir sem hafa áhuga á að slást í för með gangnamönnum á Laxárdal geta, hvort heldur sem þeir kjósa, leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sín eigin hross. Gjaldfrjáls nátthagi verður fyrir hross á Strjúgsstöðum (norðan afleggjara við veginn).

Fyrir þá sem kjósa að taka ekki þátt í reiðinni sjálfri er bent á að Kirkjuskarðsrétt er í 40 mínútna akstursfjarlægð frá Blönduósi og Skrapatungurétt í aðeins um 15 mínútna akstursfjarlægð.

Dagskrá helgarinnar er á þessa leið:

Laugardagurinn 14. september

9:30      Lagt af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal
9:30      Lagt af stað frá Gautsdal
12:00    Áning í Kirkjuskarði. Kjötsúpa og fleiri veitingar til sölu (ath. enginn posi)
13:00    Bændafitness, Guðmundur Hallgrímsson stýrir bæjakeppni
15:30    Riðið af stað frá Kirkjuskarði
16:30    Stóðhrossin hvíld við Mánaskál. 30 mínútna stopp
17:00    Rekstur frá Mánaskál,
17:30    Stóðhross komin í nátthaga við Skrapatungurétt             
23:30    Réttardansleikur í Félagsheimilinu

Sunnudagurinn 15. september

11:00 Stóðréttir í Skrapatungurétt.

Veitingasala í réttarskúr á meðan réttarstörfum stendur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir