Stólarnir bættu stöðu sína fyrir lokaumferðina með risa 0-1 sigri

Arnar Ólafsson er búinn að gera nokkur ansi mikilvæg mörk í sumar. Hér fagnar hann marki gegn Aftureldingu fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Arnar Ólafsson er búinn að gera nokkur ansi mikilvæg mörk í sumar. Hér fagnar hann marki gegn Aftureldingu fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Það er bullandi líf á báðum vígstöðvum í 2. deild karla í knattspyrnu. Þrjú lið berjast um toppsætin tvö sem tryggja sæti í Inkasso-deildinni næsta sumar og þrjú lið berjast um að forða sér frá því að enda í ellefta sæti 2. deildar og falla ásamt Seyðfirðingum í 3. deildina. Í gær fóru Tindastólsmenn austur og léku við lið Hugins frá Seyðisfirði og gerðu það sem þurfti. Lokatölur 0-1 og lið Tindastóls því í 10. sæti fyrir lokaumferðina.

Stólarnir mættu til leiks með nýtt þjálfarateymi, Sigga Donna og Jón Stefán, á Fellavöll í Fellabæ þar sem Huginn spilar heimaleiki sína, en völlurinn á Seyðisfirði hefur ekki verið í leikhæfu ástandi í sumar. Staðan í hálfleik var 0-0 en á 52. mínútu gerði Arnar Ólafsson enn eitt mikilvægt mark fyrir lið sitt en hann gerði einmitt eina markið í leiknum gegn Fjarðabyggð um síðustu helgi. Þetta reyndist eina mark leiksins og færði lið Tindastóls úr fallsæti.

Á sama tíma vann Höttur Egilsstöðum lið Völsungs á Húsavík, 2-3, þar sem sigurmarkið kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Höttur og Tindastóll eru með jafnmörg stig, 21, en Höttur er með mun betri markatölu eftir ófarir Stólanna gegn Leikni í byrjun september. Leiknismenn hafa sennilega talið sig hafa styrkt stöðu sína í deildinni með þeim sigri en nú eru Fáskrúðsfirðingar skyndilega komnir í fallsæti, með 19 stig, þegar aðeins ein umferð er eftir en lið Leiknis tapaði í gær 4-1 fyrir Aftureldingu sem er í efsta sæti deildarinnar fyrir lokaátökin.

Í lokaumferðinni sem fram fer næstkomandi laugardag er því nánast allt undir í öllum leikjunum sem fram fara. Afturelding, Grótta og Vestri berjast um efstu sætin tvö og þeir Mosfellsbæingar verða að ná í hagstæð úrslit gegn Hetti á Egilsstöðum. Vinni þeir Hött gæti lið Hattar fallið ef Stólarnir og Leiknir ná hagstæðum úrslitum. Leiknir fær lið Víðis í Garði í heimsókn og þeim dugir ekkert annað en sigur á meðan Víðismenn sigla lygnan sjó í deildinni.

Vinni Leiknir sinn leik, en Höttur tapar, þá þurfa Tindastólsmenn í það minnsta stig gegn Völsungum, sem eiga ekki lengur séns á að fara upp um deild. Þær eru ansi margar breyturnar sem upp geta komið í síðustu umferðinni og það er ljóst að eina niðurstaðan sem örugglega tryggir veru Tindastóls í 2. deild er sigur í síðasta leik gegn Húsvíkingum.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir