Stólarnir eru mættir!

Simmons var með 35 stig í kvöld og 30 framlagspunkta. MYND: HJALTI ÁRNA
Simmons var með 35 stig í kvöld og 30 framlagspunkta. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var boðið til veislu í Síkinu í kvöld þegar Stjarnan kom í heimsókn. Lið Garðbæinga er vel skipað og þrælsterkt og er spáð góðu gengi í vetur. Leikurinn var æsispennandi allt fram á lokakaflann en lið Tindastóls var með yfirhöndina lengstum og náði að standa af sér góðan kafla gestanna. Gerel Simmons var hreint frábær í liði Tindastóls, kappinn gerði 35 stig og átti stærstan þátt í flottum sigri þar sem liðsheildin var mögnuð. Það lítur allt út fyrir að stuðningsmenn Tindastóls séu komnir með liðið sitt aftur í gírinn. Lokatölur voru 93-81.

Stjarnan fór betur af stað og hafði yfirhöndina fyrstu mínúturnar.  Austurblokkin okkar virkaði hálf dofin til að byrja með þannig að Baldur þurfti aðeins að hreyfa liðið og fékk bullandi baráttu í staðinn. Axel setti niður fyrsta þrist sinn af þremur og minnkaði muninn í 9-11 og skömmu síðar gerði Pétur Birgis sína fyrstu körfu í vetur, hálfri mínútu eftir að hann kom inn á í fyrsta sinn í vetur. Það er hreinlega þannig að með Pétur í liðinu er Tindastólsliðið allt önnur og betri skepna! Næstu mínútur var jafnræði með liðunum en á lokamínútu fyrsta leikhluta setti Simmons niður þrist og Hannes Ingi sömuleiðis rétt áður en leiktíminn rann út. Staðan 26-20.

Gerel Simmons tók leikinn yfir í öðrum leikhluta og hrein unun að fylgjast með honum þeytast um völlinn. Hann gerði ellefu stig fyrstu fimm mínútur annars leikhluta. Körfur frá Bilic og Perkovic breyttu stöðunni í 44-30 og stuðið í stúkunni ósvikið. Brotið var á Simmons þegar skammt var eftir af öðrum leikhluta og hann setti vítin þrjú niður. Í liði Stjörnunnar er nú Nikolas Tomsick, sem var með Baldri í Þór á síðasta tímabili, og hann átti eftir að sýna Síkisbúum að hann þarf ekki að vera neitt nálægt 3ja stiga línunni til að setjann, sem hann gerði rétt áður en leiktíminn rann út. Stjörnumenn spörkuðu boltanum í burtu og fengu á sig tæknivíti og staðan í hálfleik 51-38.

Munurinn framan af þriðja leikhluta var jafnan um 12-15 stig en smá syrpa frá Simmons breytti stöðunni í 63-45 – átján stiga mun. Við þetta virtist færast meiri grimmd í gestina og þeir Ægir Þór og Tomsick bættu við gír og smám saman dró saman með liðunum. Reyndari menn í Síkinu báru sig vel á þessum tímapunkti og fullyrtu að það kæmi alltaf slæmur kafli í hverjum leik og gáfu í skyn að hann yrði ekki langur hjá Stólunum. 

Tíu stigum munaði að loknum þriðja leikhluta og nú var sóknarleikur Stólanna ekki eins góður og framan af leik. Nokkrir dómar féllu með Stjörnumönnum – eflaust réttilega þó svekkjandi væri – en Stólarnir héldu forystunni með því að setja niður nokkra stóra þrista þegar á þurfti að halda. Í stöðunni 73-67 rataði hálf vonleysislegur þristur frá Perkovic niður en tveimur mínútum seinna var munurinn orðinn tvö stig, staðan 78-76, eftir íleggju frá Tomsick. Nú voru jafnvel reyndustu menn farnir að róa áhyggjufullir í gráðið. Simmons náði að höggva á hnútinn í sókn Stólanna með stökkskoti og strax á eftir komu fimm stig frá Bilic og leikurinn sveiflaðist yfir til Stólanna á ný. Nú voru það gestirnir sem virtust hálf sligaðir og þristur frá Simmons slökkti endanlega í þeim þegar innan við tvær mínútur voru til leiksloka.

Simmons var sem fyrr segir á eldi, gerði 35 stig og þar af aðeins þrjú úr vítum. Sinisa Bilic var sömuleiðis drjúgur með 24 stig en kannski er merkilegasta tölfræðin sú að +/- tölur Péturs sýna að á meðan hann var inn á þá unnu Stólarnir með 22 stiga mun! Allir leikmenn Tindastóls skiluðu góðu framlagi og rétt að benda á þátt fyrirliðans, Helga Rafns, sem keyrði sína menn áfram og fór fyrir þeim í baráttu og fórnfýsi. Brodnik og Axel voru báðir með níu stig, Perkovic sjö, Hannes sex, Pétur tvö og Helgi eitt.

Það var að sjálfsögðu skarð fyrir skildi hjá gestunum að í liðið vantaði Hlyn Bærings. Engu að síður unnu gestirnir frákastabaráttuna en þó naumlega, 46-41. Tomsick var stigahæstur þeirra með 25 stig, Jamar Akho var 14 og Kyle Johnson, sem fór gríðarlega vel af stað í leiknum, gerði 13 stig. Þá gerðu Ægir Þór og Tómas Þórður níu stig hvor.

Eftir viku fara strákarnir að Hlíðarenda þar sem þeir mæta liði Vals sem hefur unnið báða leiki sína hingað  til og á leik til góða gegn liði ÍR. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir