Stólarnir komnir í undanúrslit Geysis-bikarsins eftir laufléttan sigur á Þór

Það var reiknað með hörkuleik í gærkvöldi þegar lið Tindastóls og Þórs frá Akureyri mættust í átta liða úrslitum Geysis-bikarsins í Síkinu. Í öðrum leikhluta stungu Stólarnir granna sína frá Akureyri af og voru 20 stigum yfir í hálfleik og í síðari hálfleik náðu gestirnir aldrei að ógna liði Tindastóls sem bætti bara í frekar en hitt. Lokatölur 99-69 og það eru Stjörnumenn sem mæta liði Tindastóls í undanúrslitum í Laugardalshöll í febrúar.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Bæði lið virtust sjóðheit og staðan 15-17 fyrir Þór þegar um sex mínútur voru liðnar. Þá náðu Stólarnir ágætum kafla og eftir hefðbundinn lokaþrist frá Hannesi var staðan orðin 27-21. Simmons og Júlíus Orri komu báðum liðum á blað í upphafi annars leikhluta en þá kviknaði á varnarleik Tindastóls og næstu fjórar mínúturnar gerðu gestirnir ekki stig á meðan Stólarnir gerðu 13. Á þessum kafla liggur við að megi segja að Viðar hafi nánast komið í veg fyrir að Þórsarar kæmust yfir miðju en kappinn var í góðu stuði í sinni sóló-snakkveislu; með fulla skál af fráköstum og nokkra ískalda stolna bolta á kantinum! Sóknarleikur Tindastóls var vel smurður og körfurnar komu úr öllum áttum. Staðan í leikhléi var 52-32.

Gestirnir ætluðu greinilega að koma ákveðnari til leiks í síðari hálfleik en þeir náðu mest að minnka muninn í 16 stig en nær komust þeir ekki. Upp úr miðjum leikhlutanum fór að halla undan fæti á ný hjá Þórsurum og staðan breyttist á rúmum fjórum mínútum úr 56-40 í 74-44 og síðan gerði Hannes síðustu sjö stig Stólanna í leikhlutanum. Staðan 81-48. Þórsarar höfðu fengið lítið framlag frá könum sínum í leiknum og Jamal Palmer gerði til dæmis sitt fyrsta stig í lok þriðja leikhluta en hann komst á pínu skrið síðustu fjórar mínútur leiksins. Þá voru bæði lið löngu byrjuð að hvíla sína lykilmenn og úrslitin löngu ráðin.

Lið Tindastóls spilaði vel í gær, flest var að ganga upp og allir leikmenn liðsins komust á blað. Skotnýting liðanna var svipuð innan teigs en heimamenn voru að hitta mun betur utan 3ja stiga línunnar og sömuleiðis af vítalínunni. Þá voru Tindastólsmenn sterkari í frákastabaráttunni og stálu fleiri boltum. 

Að þessu sinni var það Hannes Ingi sem var stigahæstur í liði Tindastóls með 19 stig og átti sannarlega fínan leik. Simmons spilaði mest í liði Stólanna og hann endaði með17 stig og Jaka Brodnik 15. Aðrir komust ekki yfir tíu stigin en allir leikmenn skiluðu ágætu framlagi og komust á blað í stigaskorinu. Fimm leikmenn Þórs gerðu tíu stig eða meira en stigahæstur var Pablo Montenegro sem gerði 12 stig.

Sem fyrr segir er það Stjarnan sem bíður Stólanna í undanúrslitum sem fram fara í Laugardalshöllinni. Samkvæmt vef KKÍ mætast liðin miðvikudaginn 12. febrúar kl. 20:15. Næsti leikur Tindastóls er hinsvegar nú á föstudaginn þegar Valsmenn, léttir í lund, mæta í Síkið. Leikurinn hefst kl. 18:30 að þessu sinni. Stólarnir eiga harma að hefna þar sem Valsmenn stálu stigunum í fyrri umferðinni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir