Stólastelpur komnar í 1. deildina

Það var vel við hæfi að fyrirliðinn, Bryndís Rut, ætti heiðurinn af því að koma Stólum upp í 1. deildina. Mynd úr myndasafni: PF
Það var vel við hæfi að fyrirliðinn, Bryndís Rut, ætti heiðurinn af því að koma Stólum upp í 1. deildina. Mynd úr myndasafni: PF

Meistaraflokkur kvenna Tindastóls í fótbolta gerði góða ferð til Vopnafjarðar í gær er þær unnu Einherja í 2. deildinni með tveimur mörkum gegn einu.  Með sigrinum tryggðu stelpurnar sér sæti í Inkasso-deildinni næsta tímabil.

Það voru gestgjafarnir sem byrjuðu leikinn betur og uppskáru mark á 21. mínútu er Aubri Lucille Williamson setti boltann í net gestanna og hélst sú forysta heimastúlkna allt fram á 74. mínútu er markahæsti leikmaður deildarinnar, Murielle Tiernan, skoraði fyrir Stólana og jafnaði metin. Fjórum mínútum síðar tóku Stólar forystu eftir að fyrirliðinn, Bryndís Rut Haraldsdóttir, kom boltanum í markið eftir hornspyrnu.

Með sigrinum tryggði liðið sér sæti í 1. deildinni næsta tímabil þrátt fyrir að eiga tvo leiki eftir í mótinu. Tindastóll trónir nú á toppi 2. deildar með 30 stig eftir 12 leiki en Augnablik getur jafnað þær að stigum og komist upp fyrir með betra markahlutfall en liðið hefur nú 24 stig og einungis spilað 10 leiki. Það stefnir því í sannkallaðan úrslitaleik hjá Tindastól og Augnabliki sunnudaginn 2. september á Sauðárkróksvelli en það er síðasti leikur liðanna í deildinni. Í millitíðinni leika Stólar gegn Fjarðab/ Hetti/ Leikni á Vilhjálmsvelli og þurfa stelpurnar að sjálfsögðu að klára þann leik fyrst með sigri.

Til hamingju stelpur!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir