Stólastelpur lögðu Stjörnuna í Bestu deildinni í gær

Stelpurnar í Tindastól sýndu það í gær að ekkert aðkomulið getur bókað stig á Króknum í Bestu deildinni í fótbolta þegar þær gerður sér lítið fyrir og sigruðu Stjörnuna sem íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáði að myndi enda í 1. sæti deildarinnar.  Með sigrinum lyftu Stólar sér af botninum og komu sér fram fyrir FH og Selfoss á stigatöflunni með 5 stig eftir einn sigur og tvö jafntefli.

Það var ekki að sjá í leik gærkvöldsins að þar færu lið sem væru á sitt hvorum enda stigatöflunnar þar sem mikið jafnræði var með þeim allan tímann, ágætis færi á báða bóga. En það var Murielle Tiernan sem gerði út um leikinn á 59. mínútu með hnitmiðuðu skoti inn í teig gestanna í vinstra hornið sem Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, annars ágætur markvörður Stjörnunnar, átti ekki séns á að verja. Fleiri mörk létu ekki sjá sig og því hirtu heimakonur öll stigin sem í boði voru við mikinn fögnuð þeirra fáu áhorfenda sem treystu sér út í íslenska sumarið þetta kvöldið.

Donni þjálfari var mjög ánægður með heildarframmistöðu liðsins í gær og sagði uppleggið hafa verið að reyna að halda betur í boltann en oft áður og vera hugrakkar þar.

„Við vildum loka þeim svæðum sem þær vilja leita hvað mest í í þeirra sóknarleik og það bæði gekk að mestu mjög vel upp,“ segir hann og nefnir að brjáluð vinnusemi, skipulag, agi og hugrekki hafi verið það sem skóp sigurinn að þessu sinni. „Eins og áður gáfu stelpurnar okkar allt í leikinn og uppskáru loksins eftir því.“

Það er stutt á milli leikja þessa dagana því nk. laugardag tekur Tindastóll á móti liði Selfoss í Mjólkurbikarnum. Stelpurnar léku gegn liðinu í deildinni um daginn og þurftu þá að lúta í sunnlenskt gras en Donni stefnir á sigur og kallar eftir því að stuðningsfólk Tindastóls vakni eftir gleði síðustu viku.

„Selfoss er hörkulið og vel skipulagt. Okkur fannst þær ekki endilega eiga sigurinn skilin síðast þegar við mættum þeim svo við eigum harma að hefna þar. Við þurfum svipaða uppskrift í þeim leik eins og í gær og stefnum að sjálfsögðu á sigur þar eins og alltaf. Ég var mjög glaður með þá stuðningsmenn sem mættu og studdu liðið í gær en ég viðurkenni að ég saknaði þess að sjá töluvert fleiri í stúkunni okkar. Við erum það félag sem er annálað fyrir hvað bestan stuðning á landinu svo ég vona að það smitist yfir í hitt liðið sem er í efstu deild líka.“ Donni segir að stelpurnar muni halda áfram að leggja sig fram við að gera samfélagið stolt af sér og því vonist hann til að sjá enn fleiri á næsta leik.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir