Stólastúlkur lágu í Árbænum

Mynd: ÓAB
Mynd: ÓAB

Stelpurnar í Tindastóli gerðu sér ferð suður í Árbæinn í gær þar sem að lið Fylkis tók á móti þeim í Pepsi Max deild kvenna. Þetta var frestaður leikur, en liðin áttu spila þann 10. maí sl. en þá geysaði Covid í Skagafirði eins og sumir muna eftir. Fyrir leikinn var Fylkir í botnsæti deildarinnar með tvö stig og Tindastóll í sætinu fyrir ofan með 4 stig. Leikurinn var því algjör botnbarráttuslagur.

Fylkir var betri aðilinn í fyrri hálfleik og áttu fleiri marktækifæri en Tindastóll sem átti þó fleiri færi en þær hafa vanalega átt í þeim leikjum sem þær hafa spilað hingað til í efstu deild. Það vantaði þó stórt púsl í sókn Stólanna því að Murielle Tiernan, þeirra aðal sóknarmaður, var ónotaður varamaður á bekknum í leiknum en hún er að glíma við meiðsli. Stólastelpur voru framar á vellinum en vanalega og voru því opnari til baka og nýttu Fylkisstúlkur sér það. Stelpunar úr Árbænum settu boltann í netið á 19. mínútu en rangstaða var réttilega dæmd. Amber stóð sína plikt að vanda í marki Tindastóls og varði hvert skotið á fætur öðru.

Amber gat þó lítið gert á 26. mínútu þegar að Hulda Hrund fyrirliði Fylkis stakk sér inn fyrir vörn Stólanna eftir glæsilega sendingu yfir allan völlinn frá Sæunni Björnsdóttur varnarmanni Fylkis og setti boltann óverjandi niðri í nærhornið. Fylkir hélt áfram að þjarma að marki Tindastóls það sem eftir lifði seinni hálfleiks en Amber sannaði að hún sé ein af bestu markvörðum deildarinnar. Staðan var því 1:0 fyrir Fylki þegar blásið var til hálfleiks.

Seinni hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri. Fylkir var meira með boltann og sóttu grimmt, en Tindastóll átti þó sín færi. Það dróg til síðan til tíðinda á 55. mínútu þegar að Shannon Simon skoraði annað mark Fylkist með skalla aftur fyrir sig eftir hornspyrnu, algjör sofandaháttur í dekkningu Tindastólsliðsins og ekki til eftirbreytni.

Tindastóls stelpur vöknuðu betur til lífsins þegar þær voru orðnar tveimur mörkum undir. Hugrún Páls fékk dauðafæri á 65. mínútu, ein á móti markmanni, eftir góða stungusendingu frá Jackie en fyrsta snertingin sveik hana og boltinn endaði í fanginu á markverði Fylkis. Á 80. mínútu átti síðan Hugrún góða stungu inn á Jackie en Tinna Brá markmaður Fylkis kom  vel út á móti henni og lokaði á hana. Stólarnir fundu síðan netið á 85. mínútu þegar að Aldís átti glæsilega fyrirgjöf á fjær, frá hægri kantinum, þar sem að Hugrún var mætt og lagði boltann laglega í netið.

Við þetta færðist spenna í leikinn það sem eftir lifði leiks og fengu Tindastóll gott tækifæri til að jafna metin í uppbótartíma þegar að Amber markvörður Stólanna mætti inn í teig í hornspyrnu og átti skalla rétt framhjá, hársbreidd frá Alison-mómenti.

Fleiri urðu mörkin ekki og urðu því stigin þrjú eftir í Árbænum. Tindastóll vermir því botnsæti deildarinnar með fjögur stig og Fylkir er einu sæti fyrir ofan þær með fimm stig. Þór/KA og Keflavík eru í sætunum fyrir ofan með sex stig og Stjarnan þar fyrir ofan með sjö stig svo óþarfi er að hafa áhyggjur strax af falldraugnum fyrir Tindastól.

Tindastóll heimsækir lið Keflavíkur í næstu umferð laugardaginn 19. Júní og með sigri geta þær komist upp fyrir Keflavíkurstelpur, þannig baráttan í deildinni er mikil og allt getur gerst.

/SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir