Stöndum saman í Covid - Áskorandinn Anton Scheel Birgisson

Það er vissulega áhugavert að vera í háskólanámi í nýju landi með nýju tungumáli. Það tekur tíma að koma sér inn í hluti, fá kennitölu og rafrænan aðgang að gögnum sem skipta í samskiptum við hið opinbera. Málið er hins vegar töluvert flóknara þegar heimsfaraldur dynur yfir og það er sagt að Daninn taki sér tíma í allt, en það hugtak er ansi teygjanlegt.

Í upphafi var okkur í sálfræðideild tjáð að engir yrðu kynningar dagarnir sem leiddi til þess að öll upplýsingagjöf hefur verið minni en áður og fer kennsla fram á netinu án mikilla mannlegra samskipta fyrir utan póstsamskipti. Heimavinna í 30 fm er því það sem verið hefur. Ég er sem betur fer vanur að vinna heima í námi. Ég er fyrir rútínu og finnst mikilvægt að hafa áhugamál og geri eins mikið af hlutum sem að örva sem flest skynfæri í einu, eins og útihlaup, hjólatúra, kaffihús og listasafnarölt. Ég skil vel að margir eigi frekar erfitt með þessa Covid tíma. Innivera er ekki allra og þessu getur fylgt svo kvíði sem  getur endað illa ef fólk er ekki duglegt að hugsa um sig.

Hér í skólanum er mikið verið að tala um að ná til fólks áður en vandinn verður illviðráðanlegur þ.e, að byrja að vinna fyrr í honum. Það er hins vegar oft undir því komið að fólk leiti sér aðstoðar fyrr eða einhver nákominn bendi honum á að gera það. Ég hvet því fólk, hvort sem á Covid tímum eða ekki, að ræða við nákomna og fagfólk fyrr sé eitthvað að angra það. Kvíði er eðlilegt fyrirbæri en þá er líka bara gott að vita það. Því fyrr sem hlutirnir eru ræddir því minni líkur eru á að vandinn verður stór. 
Stöndum saman í Covid, kveðja úr Árósum.

Ég skora á guðföður minn, stórfrænda og bakara í austur-sýslunni, Guðmund Paul Scheel Jónsson að vera næsti gesta penni. Það væri gaman að heyra sögur hans frá mótorhjólaævintýrum og framtíðarplön að flytja til Þýskalands.

Áður birst í 43. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir