Stórleikur í Síkinu í kvöld

Eru ekki allir klárir í slaginn?!  MYND: HJALTI ÁRNA
Eru ekki allir klárir í slaginn?! MYND: HJALTI ÁRNA

Það verður hart barist í Síkinu í kvöld þegar lið Tindastóls og Keflavíkur leiða saman hesta sína í lokaumferð Dominos-deildarinnar. Liðin eru bæði með 30 stig þegar 21 umferð er lokið og ljóst að sigurliðið í kvöld endar að öllum líkindum í þriðja sæti. Staða fimm efstu liða er merkilega jöfn og talsverðar sviptingar geta orðið á stigatöflunni í kvöld.

Stórleikur kvöldsins er klárlega leikur Tindastóls og Keflavíkur. Hin liðin í toppbaráttunni eiga leiki sem fyrirfram verða að teljast þægilegir. Þannig á topplið Stjörnunnar útileik gegn Haukum, sem hafa þó reyndar helst verið í því að gera toppliðunum skráveifu. Njarðvík, sem er með 32 stig líkt og Stjarnan, fær Skallagrím í heimsókn og KR, sem er með 28 stig, fær botnlið Breiðabliks í DHL-höllina. Ef Stjarnan misstígur sig gegn Haukum þá verður Njarðvík deildarmeistari með sigri en tapi Njarðvík fyrir Borgnesingum þá gætu Stólarnir skotist upp í annað sætið nái þeir að sigra Keflavík. Ef lið Tindastóls sigrar Keflavík í kvöld en Njarðvík vinnur sinn leik þá enda Stólarnir í þriðja sæti. Tapi Stólarnir hins vegar þá eru allar líkur á því að liðið endi í fimmta sæti deildarinnar, Keflavík hirði þriðja sætið en KR skjótist upp að hlið Tindastóls en endi í fjórða sæti þar sem þeir unnu báða leikina gegn Stólunum í vetur.

Líklegasta niðurstaðan í kvöld er því sú að Stólarnir endi í þriðja eða fimmta sæti. Hvort heldur sem verður þá er ljóst að andstæðingar Tindastóls í úrslitakeppninni verða strembnir. Endi liðið í þriðja sætið mæta Stólarnir spræku liði Þórs Þorlákshöfn en hafi heimavallarréttinn. Vermi lið Tindastóls fimmta sætið þá mætast liðin sem spiluðu til úrslita í fyrravor, KR og Tindastóll. Þá hefðu Vesturbæingarnir heimavallarréttinn.

Keflvíkingar hafa spilað vel í síðustu leikjum en það er fyrrum Tindastólskappinn Sverrir Þór Sverrisson sem þjálfar liðið. Og af því að Feyki datt í hug að spyrja Rúnar Birgi Gíslason hversu marga leiki Sverrir hefði spilað fyrir Tindastól þá ku það hafa verið 52 deildarleikir, sjö í bikar og 15 í fyrirtækjabikar og svo nokkrir í playoffs! Stólarnir, sem unnu fyrri leik liðanna 78-92, hafa kannski ekki beinlínis verið sannfærandi í síðustu leikjum en þeir þrír leikir sem leiknir hafa verið síðan Alawoya kom til liðsins á ný hafa allir unnist. Það er að sjálfsögðu það sem máli skiptir. Ljóst er þó að leikmenn þurfa að stíga upp í kvöld og mæta grimmir til leiks.

Það er því mikið undir í Síkinu í kvöld og vissara fyrir stuðningsmenn að fjölmenna. Ekki er annað vitað en að leikmenn Tindastóls séu klárir í slaginn og tilbúnir í sigur. Þá verða víst Tindastóls-borgararnir á sínum stað og ættu að renna ljúft niður.

Úrslitakeppnin hefst þann 21. mars.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir