Stórtónleikar í Skagafirði
Nú líður senn að flutningi kórverksins Carmina Burana í Skagafirði. Það verður á sunnudaginn 2. Nóvember sem fjölmennur kór kemur að sunnan til að flytja verkið, ásamt Carminahópnum héðan úr Skagafirði. Tónleikarnir hefjast kl. 17.00 í íþróttahúsinu í Varmahlíð. Húsið mun opna kl. 16.00.
Tóndæmi má nálgast hér
Flytjendur eru Óperukór Reykjavíkur, Skagfirska söngsveitin, kvennakór úr Domus vox, kór Flensborgarskóla í Hafnarfirði, Landsvirkjunarkórinn og sem fyrr segir Carminahópurinn úr Skagafirði. Þetta eru sömu kórarnir, utan kórs Flensborgarskóla, og sungu í Langholtskirkju tvenna tónleika fyrir fullu húsi síðasta vor og aftur í Carnegie Hall í New York fyrir u.þ.b. 2000 manns.
Stjórnandi verður Garðar Cortes. Einsöngvarar verða þau Þóra Einarsdóttir sópran, Bergþór Pálsson bariton og Þorgeir J. Andrésson tenor, en óhætt er að segja að sá síðastnefndi hafi heillað Skagfirðinga með söng sínum síðasta vetur er hann tók þátt í verkefni karlakórsins Heimis um Stefán Íslandi. Á flyglum verða þau Guðríður St. Sigurðardóttir og Kristinn Örn Kristinsson og það verður svo slagverkssveit frá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem sér um kraftmikið slagverk tónlistarinnar. Er hér um einvalalið söngvara og hljóðfæraleikara að ræða.
Þess má geta að Carmina Burana er eitt vinsælasta og skemmtilegasta kórverk samtímans og er það flutt einusinni til tvisvar á dag einhversstaðar í heiminum allan ársins hring. Verkið hefur aldrei áður verið flutt í Skagafirði svo hér er stórviðburður í uppsiglingu. Miðasala er í fullum gangi og er hægt að nálgast miða í forsölu í versluninni Kompunni s: 453 5499 og/eða í s: 862 6711. Verð í forsölu er kr. 2.500,- en kr. 3.000,- við innganginn. Ath! Hægt er að greiða með korti við inngang. Tryggið ykkur miða tímanlega því miðasala hefur farið vel af stað.
Það er Kristján F. Valgarðsson söngkennari og kór hans Carminahópurinn sem standa að þessari uppfærslu og eru Skagfirðingar og nærsveitarmenn eindregið hvattir til að tryggja sér miða og missa ekki af þessum tónlistarviðburði.